Félag löggiltra endurskoðenda (FLE) hefur sent forsætisnefnd Alþingis bréf þar sem félagið leggur áherslu á að ríkisendurskoðandi sé með löggildingu sem endurskoðandi.

Tilefnið er að nýlega var auglýst staða ríkisendurskoðanda. Hvorki Skúli Eggert Þórðarson, sem lét af embættinu í lok janúar, né Guðmundur Björgvin Helgason, starfandi ríkisendurskoðandi, eru löggiltir endurskoðendur.

Krafa um að ríkisendurskoðandi skuli hafi löggildingu sem endurskoðandi var felld niður í meðförum þingsins á frumvarpi sem varð að núgildandi lögum sem tóku gildi árið 2017. Í staðinn er eingöngu gerð krafa um að hann hafi þekkingu á reikningsskilum og ríkisrekstri auk stjórnunarreynslu.

Stjórn FLE lítur svo á að þarna hafi verið gerð ákveðin mistök og bendir á mikilvægi þess að ríkisendurskoðandi hafi réttindi til að geta staðfest og áritað ársreikninga með endurskoðunaráritun.