Rússneski auðkýfingurinn Roman Abramovich, sem er þekktur fyrir að eiga knattspyrnufélagið Chelsea, mun fá tæpleag 450 milljónir dala, eða sem nemur 57 milljörðum króna í arð, frá stálframleiðandanum og námufyrirtækinu Evraz sem er skráð í bresku Kauphöllina. Roman er stærsti hluthafi Evraz með 28,6% hlut.

Tekjur Evraz jukust um 45% á milli ára og námu 14,1 milljarði dala í fyrra sem stafar aðallega af sölu á stáli og kolum. Fyrirtækið naut góðs af miklum hrávöruverðshækkunum í heimi á árinu. Hagnaður fyrir skatta jókst úr 1,3 milljörðum dala í 4,2 milljarða dala á milli ára.

Starfsemi Evraz er að mestu leyti í Rússlandi og fyrirtækið varaði við því að viðskiptaþvinganir gegn Rússlandi í kjölfar innrásar í Úkraínu gæti haft áhrif á reksturinn. Fyrirtækið var hins vegar ekki á lista yfir rússnesk fyrirtæki, sem taldi flugfélagið Aeroflot og VTB Bank, sem beitt voru viðskiptaþvingunum. Fjármálastjóri Evraz sagði á hluthafafundi að það væri of snemmt að segja til um hvort fyrirtækið hafi orðið fyrir miklum áhrifum vegna ástandsins og hvort lánveitendur félagsins eigi í vandræðum vegna viðskiptaþvingananna.

Í umfjöllun The Guardian segir að Roman Abramovich hafi ekki verið beittur viðskiptaþvingunum. Þegar breska dagblaðið hafði samband við lögfræðing auðkýfingsins í síðustu viku sagði hann að Evraz uppfyllti ekki forsendur fyrir mögulegar viðskiptaþvinganir. „Það væri fáránlegt að gefa í skyn að viðskiptavinur okkar beri á nokkurn hátt ábyrgð eða hafi áhrif á hegðun rússneska ríkisins,“ bætti hann við.

Hlutabréfaverð Evraz, sem er hluti af FTSE 100 vísitölunni, hefur hækkað um fimmtung í dag en taka skal þó fram að gengi félagsins hefur engu að síður fallið um 66% frá áramótum. Markaðsvirði Evraz nemur í dag tæplega 3 milljörðum punda.