Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að skipa Runólf Pálsson í embætti forstjóra Landspítala til næstu fimm ára. Runólfur tekur við embætti forstjóra 1. mars næstkomandi samkvæmt tilkynningu sem heilbrigðisráðuneytið sendi frá sér í dag.

Runólfur er læknir að mennt með sérfræðiréttindi í lyflækningum og nýrnalækningum. Runólfur er prófessor við Háskóla Íslands og varaforseti læknadeildar Háskóla Íslands.

„Runólfur hefur afburðarþekkingu á öllum þáttum faglegrar starfsemi spítalans en hefur einnig yfirgripsmikla þekkingu á heilbrigðiskerfinu hér á landi í víðu samhengi, samspili stofnana og mismunandi þjónustustiga. Hann hefur verið leiðandi og  farsæll í klínískum störfum og sem stjórnandi. Runólfur  hefur unnið að innleiðingu margvíslegra umbóta og nýjunga og framtíðarsýn hans fyrir Landspítala er skýr,“ segir í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins.

Runólfur tekur við starfinu af Páli Matthíassyni sem hætti störfum þann 11. október. Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Landspítala, var fengin til að gegna stöðunni þar til nýr forstjóri yrði skipaður. Fjórtán sóttu um forstjórastöðuna og tólf mættu í viðtöl. Af þeim voru fimm umsækjendur metnir vel hæfir og sjö hæfir.

Í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins er Runólfur sagður hafa gegnt leiðandi hlutverki á alþjóðavettvangi á sviði lyflæknisfræði. Ráðuneytið tekur fram að Runólfur hafi verið afkastamikill í vísindastarfi og hafi metnað og skýra sýn á akademískt hlutverk spítalans og umbætur á því sviði sem og mikilvægi tengsla spítalans við háskólastofnanir.

Runólfur er sagður hafa mikla reynslu og þekkingu á kennslu- og þjálfunarhlutverki spítalans. Hann var kennslustjóri lyflækningasviðs og staðgengill framhaldsmenntunarstjóra lyflækningasviðs Landspítala auk þess að hafa komið að fjölda nefnda og annarra stefnumótandi starfa í tengslum við kennslu- og þjálfunarhlutverk spítalans.