Kafbátaeftirlit umhverfis Ísland hefur verið aukið í kjölfar vaxandi hernaðarumsvifa Rússlands í Norður-Atlantshafi. Kafbátaumferð á svæðinu er nú orðin sambærileg því sem var á tímum kalda stríðsins samkvæmt upplýsingum frá breska varnarmálaráðuneytinu.
Stuttu eftir að Vladímír Pútín Rússlandsforseti setti kjarnorkusveitir Rússlands í viðbragðsstöðu í lok febrúar varð vart við umferð nokkurra rússneskra kjarnorkukafbáta, sem geta borið 16 eldflaugar hver, á Norður-Atlantshafi. Þá hefur breska varnarmálaráðuneytið gefið það út að sendar verði sérbúnar herþotur á svæðið til að fyltjast með aukinni kafbátaumferð, segir í frétt The Times .
Kafbátaeftirlit við Íslandsstrendur er í höndum vina- og bandalagsríkja Íslands í samræmi við gildandi samkomulag við Bandaríkin frá 2016, samstarf á vegum Atlantshafsbandalagsins og sem liður í þjóðaröryggisstefnu íslenskra stjórnvalda. Af og til verður vart við skipaumferð rússneksa sjóhersins en hún er alla jafna utan landhelginnar, á alþjóðlegu hafsvæði, segir í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Viðskiptablaðsins.
Undanfarið hefur Rússland aukið við hernaðarlegan viðbúnað sinn á heimskautasvæðinu að nýju eftir að hafa dregið úr umsvifum sínum þar frá lokum kalda stríðsins. Þá eiga Rússar stærstu birgðir af kjarnorkuvopnum í heimi, rúmlega 4 þúsund kjarnaodda. Stór hluti þeirra er talinn þess eðlis að vera ætlað að eyðileggja skotmörk óvina á tilteknum svæðum án þess að valda víðtækri eyðileggingu.