Um áramótin losnuðu 82 kjarasamningar og því til viðbótar munu 152 samningar losna í mars. Samningaviðræðum Eflingar, VR og Verkalýðsfélags Akraness við Samtök atvinnulífsins (SA), var vísað til ríkissáttasemjara fyrir jól.

Samningsaðilar funduðu með ríkissáttasemjara á milli jóla og nýárs og verður næsti fundur miðvikudaginn 9. janúar. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, segir að á þeim fundi verði farið yfir kröfugerð stéttarfélaganna, sem og samningsáherslur SA en á fundinum á milli jóla og nýárs fékk ríkissáttasemjari hundruð blaðsíðna af gögnum í hendur.

Samtök atvinnulífsins funda einnig með fleiri félögum um þessar mundir. Í gær var fundað með iðnaðarmönnum og í næstu viku verður fundað með Starfsgreinasambandinu og Landssambandi verslunarmanna, en síðastnefnda félagið fylgir VR ekki að málum. Reiknað er með að línur í þessum viðræðum muni skýrast á næstu vikum.