Hagnaður Össurar á fyrsta ársfjórðungi nam 9 milljónum dala eða um 1,2 milljarða íslenskra króna sem samsvarar 5% af veltu. Sala félagsins nam 170 milljónum dala eða um 21,8 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi sem er 10% söluvöxtur í staðbundinni mynt og innri vöxtur var 6%. Innri vöxtur var 6% á stoðtækjum og 5% á spelkum og stuðningsvörum.

Þann 24. febrúar hætti Össur að selja til Rússlands vegna stríðsins og hefur ákveðið að viðhalda því á meðan ástandið er óbreytt. Sala Össurar til Rússlands var um 1% af sölu félagsins á síðasta ári..

Sjá einnig: Með svigrúm til að bregðast við stríðinu

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var um 3,4 milljarðar króna eða 16% af veltu á á fjórðungnum.

Í tilkynningu Össurar kemur fram að félagið hafi gengið frá kaupum á fyrirtæki með alls 10 milljónir Bandaríkjadala eða um 1,3 milljarða króna í ársveltu.

Fjárhagsáætlun félagsins fyrir árið 2022 er óbreytt og gerir ráð um 6-9% innri vexti, um 20-21% EBITDA framlegð að teknu tilliti til einskiptisliða, 3-4% fjárfestingarhlutfalli og virku skatthlutfalli á bilinu 23-24%.

Sveinn Sölvason, forstjóri:

„Við sjáum jákvæða þróun á eftirspurn eftir stoðtækjum, spelkum og stuðningsvörum á okkar helstu mörkuðum. Við skiluðum góðum innri vexti þrátt fyrir að hafa orðið fyrir áhrifum af COVID-19 á fyrstu mánuðum ársins. Við erum að fást við skammtíma verðhækkanir í aðfangakeðjunni en gert er ráð fyrir að það dragi úr áhrifum þeirra. Við höfum nú sett Power Knee, heimsins fyrsta stoðtækjahné með innbyggðum mótor, á markað á öllum helstu markaðssvæðum okkar með góðum árangri og fengið framúrskarandi endurgjöf.“