Salan á Lambhagasalati hefur áttfaldast frá árinu 2008 og uppsker fyrirtækið um 400 tonnum af salati á ári. Fyrirtækið Lambhagi hefur reist um 11 þúsund fermetra af hátæknigróðurhúsum utan um framleiðslu sína. Hafberg Þórisson, garðyrkjumaður og stofnandi Lambhaga segir rekstrarskilyrði mun betri í Mosfellsdal en í Reykjavík þó hann hefði viljað sjá hana dafna þar.

Lambhagi er í dag eitt af fáum lögbýlum í Reykjavík en nú komi til greina að fyrirtækið flytjist alfarið með starfsemi sína í Mosfellsdalinn að því er fram kemur í Morgunblaðinu. Nú hyggst fyrirtækið hefja framkvæmdir á um tveggja hektara gróðrastöð í dalnum síðar á árinu, en Hafberg segir meiri eftirspurn en fyrirtækið ráði við á sumrin.

Hins vegar segir hann hafa verið erfitt að koma fyrirtækinu af stað þegar hann byrjaði fyrir 40 árum síðan, enda Íslendingar ekki vanir að borða salat. Hafberg er einn þeirra garðyrkjubænda sem nú íhuga að hefja útflutning á salati í stórum stíl vegna skilvirkari flutningsleiða til Evrópu.