Fjölmiðlar í Noregi hafa beint spjótum sínum að norska bankanum DNB sem kemur nokkuð við sögu í Samherjaskjölunum. Félögin Esaj Seafood og Esja Shipping, sem eru í eigu Samherja og skráð á eyjunni á Kýpur, voru um árabil með bankareikninga hjá DNB en leitt er líkum að því í fréttum Stundarinnar og Kveiks að umrædd félög hafi verið notuð til að peningaþvættis og skattaundanskots.

Hlutabréf í DNB lækkuðu um 2,7% í norsku Kauphöllinni í gær og hafa lækkað um 1,6% það sem af er degi í dag. DNB er stærsti banki Noregs.

Miðilinn Dagens Næringsliv ræðir málið við lagaprófessorinn Jon Petter Rui við Háskólann í Tromsö. Hann segir málið langstærsta peningaþvættismál sem norskur banki hafi verið viðriðinn ef ásakanirnar reynast réttar. Samtals hafi 640 milljónir norskra króna farið í gegnum bankans frá fyrirtækjum í skattaskjólum.

Rui segir ásakanirnar sem komið hafa fram kalli á rannsókn norska Fjármálaeftirlitsins því reynist þær á rökum reistar hafi bankinn gerst brotlegur við norsk lög.

DNB lokaði bankareikningum félaganna á síðasta ári þar sem ekki hafi verið hægt að gera grein fyrir endalegum eigendum þeirra. Hins vegar hefur bankinn ekki svarað fyrirspurnum um hvort félögin og reikningsfærslurnar hafi verið tilkynntir til fjármálaeftirlitsins, en samkvæmt Rui ber bankanum að gera það ef minnsti grunur sé um óeðlilega viðskiptahætti.

Í svari norska Fjármálaeftirlitsins við fyrirspurn fjölmiðla segir að ásakanirnar sem fram hafi komið séu nú til rannsóknar hjá eftirlitinu.