Samherji hf. hagnaðist um 66 milljónir evra á síðasta ári, jafnvirði um 9 milljarða króna miðað við meðalgengi síðasta árs. Hagnaðurinn í evrum var svo til óbreyttur á milli ára samkvæmt nýbirtum ársreikningi félagsins.

Rekstrartekjur námu 330 milljónum evra, jafnvirði um 45,3 milljarða króna og jukust um 5% á milli ára. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) jókst úr 58 miljónum evra í 66 milljónir evra, eða sem samsvarar 9,1 milljarði króna. Starfsmenn samstæðunnar voru 819 á síðasta ári.

Eignir félagsins í lok árs 2019 námu 96 milljörðum króna, skuldir tæplega 33 milljörðum og eigið fé nærri 64 milljörðum króna.

Árið 2018 var starfsemi Samherja skipti í tvö félög. Sjávarútvegsstarfsemi Samherja á Íslandi, auk tveggja dótturfélaga í Færeyjum eru inn í Samherja hf. Erlend starfsemi Samherja er hins vegar að mestu inn í félaginu Samherji Holding ehf. en inn í því félagi er einnig 27% eignarhlutur í Eimskipum. Samherji Holding hefur ekki skilað inn ársreikningi til fyrirtækjaskrár vegna síðasta árs.

Ætla að verða leiðandi á heimsvísu í stjórnun- og innra eftirliti

Í ársreikningnum er fjallað um ásakanir á hendur Samherja um spillingu og mútur í Namibíu sem Kveikur fjallaði um á síðasta ári. Rannsókn standi yfir hjá yfirvöldum á Íslandi og Namibíu en ákæra hafi ekki verið gefin út. „Félagið tók þessar ásakanir alvarlega og lét forstjóri félagsins tímabundið af störfum auk þess sem stjórn félagsins réð strax til sín alþjóðlegu lögmannsstofuna Wikborg Rein til að framkvæma ítarlega rannsókn á starfsemi dótturfélaga sem tengdust starfseminni í Namibíu. Rannsókn Wikborg Rein var mjög yfirgripsmikil og voru niðurstöður hennar kynntar stjórn Samherja í júlí 2020,“ segir í skýringu við ársreikninginn.

Félagið hafi þann 17. janúar kynnt áform um innleiðingu á sérstöku kerfi fyrir stjórnarhætti og regluvörslu innan samstæðunnar. Vinna við innleiðingu kerfisins sé vel á veg kominn og stefnt er á að taka það í notkun síðar á þessu ári. „Markmiðið er að Samherji verði leiðandi á sviði stjórnunar- og innra eftirlits í sjávarútveginum á heimsvísu,“ segir í skýringunni.

Keyptu eigin bréf fyrir sex milljarða

Í ársreikningnum segir jafnframt að félagið hafi sjálft keypt 10% af útgefnum bréfum í félaginu fyrir 44 milljónir evra, jafnvirði um 6 milljarða króna í tengslum við breytingar á eignarhaldi Samherja. Ákvörðun um þetta var tekin á aðalfundi þann 22. ágúst 2019.

Í sumar var greint frá því að aðaleigendur Samherja, þau Steinunn Guðmundsdóttir, Þorsteinn Már Baldvinsson, Kristján Vilhelmsson og Kolbrún Ingólfsdóttir, hefðu afhent börnum sínum nær alla eignarhluti þeirra í félaginu. Eftir breytingarnar urðu Baldvin Þorsteinsson og Katla Þorsteinsdóttir stærstu hluthafar Samherja með 43% hlut samanlagt. Dagný Linda Kristjánsdóttir, Halldór Örn Kristjánsson, Kristján Bjarni Kristjánsson og Katrín Kristjánsdóttir fara samanlagt með um 41,5% hlutafjár eftir breytingarnar.