Hlutabréfaverð breska íftæknifyrirtækisins Oxford Nanopore hækkaði um 40% í fyrstu viðskiptum með bréfin í kauphöllinni í London í dag. Félagið hefur þróað nýja aðferð við raðgreiningu á erfðaefni, sem m.a. hefur nýst við COVID-19 próf. Íslensk erfðagreining er einn samstarfsaðila félagsins. Félagið var stofnað árið 2005 en það varð til upp úr vísindastarfi innan Oxford háskólans.

Bandaríska lyfjafyrirtækið Amgen, eigandi Íslenskrar erfðagreiningar, er meðal þeirra sem hagnast á hækkun hlutabréfverðs Oxford Nanopore. Árið 2018 keypti Amgen hlut Oxford Nanopore fyrir 50 milljónir punda, um 8,8 milljarða króna þar sem miðað var við að heildarvirði Oxford Nanopore væri um 1,5 milljarðar punda. Við upphaf viðskipta í dag var félagið metið á um 3,4 milljaðra punda að undangegnu 534 milljóna punda frumútboði, sem talið er að verði meðal þeirra fimm stærstu á Bretlandi á árinu. Með hækkun dagsins er virði félagsins nú nær 4,8 milljörðum punda.

:egar greint var frá fjárfestingu Amgen árið 2018 var haft eftir Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, í fréttatilkynningu að tækni Oxford Nanopore hefði gert Íslenskri erfðagreiningu mögulegt að rannsaka hluta erfðaefnisins sem hingað til hafi verið vísindafólki óaðgengilegur og það auðveldaði félaginu til muna að finna tengsl milli margbreytileika erfðamengisins og sjúkdóma.

Vísindamenn ÍE birtu fyrr á þessu ári vísindagrein í Nature þar sem fjallað var um byltingarkennda aðferð við raðgreiningu, með tækni Oxford Nanopore , sem nýtt var í rannsókn á erfðaefni 3.622 Íslendinga. Við rannsóknina var hægt að lesa allt að 50 þúsund niturbasa í einu en sú aðferð sem hingað til hefur verið nýtt takmarkast við 151 niturbasa.