Fyrirtækið Bústólpi, sem þjónustar íslenskan landbúnað, hagnaðist um tæplega 26 milljónir króna á síðasta ári en árið áður nam hagnaðurinn 42 milljónum króna. Þá nam velta fyrirtækisins tæplega 1,9 milljörðum króna, samanborið við 2 milljarða veltu árið 2018. Félagið er í eigu Fóðurblöndunnar, en Kaupfélag Skagfirðinga á ríflega helmingshlut í Fóðurblöndunni. Þá á Fisk Seafood um 25% hlut og Auðhumla um 16% hlut í Fóðurblöndunni.

„Rekstur síðasta árs gekk heilt yfir ágætlega, við vorum í hóflegum vexti á árinu og náðum ágætlega viðunnandi afkomu. Það voru engar stórar sviptingar á síðasta ári," segir Hólmgeir Karlsson, framkvæmdastjóri Bústólpa. Bústólpi rekur fóðurverksmiðju sem framleiðir kjarnfóður fyrir íslenskan landbúnað. „Við þjónustum aðallega bændur á Norðurog Austurlandi. Að auki stundum við vörusölu og aðra þjónustu við innlendan landbúnað."

Hólmgeir segir að árið 2020 hafi verið ólíkt öðrum árum, vegna COVID-19 faraldursins, en þrátt fyrir það hafi fyrirtækið náð að halda sínu striki í vörusölu og allri starfsemi og þjónustu. „Það lítur að sama skapi út fyrir að það verði veltuaukning frá fyrra ári en þrátt fyrir það stöndum við frammi fyrir þó nokkrum framlegðarsamdrætti milli ára," segir Hólmgeir og bætir við að minni framlegð helgist mest af gengisþróun krónunnar, en félagið verslar af stórum hluta inn hráefni í kjarnfóðursvinnsluna erlendis frá.

„Okkur hefur ekki þótt forsvaranlegt að velta þessari óhagstæðu gengisþróun alfarið út í verðlagið og reynum heldur að fara í gegnum hríðarbylinn með viðskiptavinum okkar. Við munum því skila daprari afkomu á yfirstandandi ári heldur en undangengin ár. Við horfum hins vegar á rekstur félagsins sem langhlaup og erum þar af leiðandi vel búin undir þennan tímabundna mótbyr."

Innlend framleiðsla sannað gildi sitt

Hólmgeir bendir á að Bústólpi sé, líkt og önnur fyrirtæki sem stunda innflutning, berskjaldað fyrir sveiflum á gengi krónunnar. „Þessar gengisbreytingar gerast hratt og við erum ekki í aðstöðu til að gera breytingar á innkaupaferlum okkar með skömmum fyrirvara. Við fáum stórar sendingar af korni þrisvar til fjórum sinnum á ári og þurfum í raun bara að kaupa kornið á þeim tíma sem skipið er lestað."

Hann segir að fyrrnefndur heimsfaraldur hafi orðið til þess að fyrirtækið þurfti að gjörbylta skipulagi sínu. „Í upphafi faraldursins bútuðum við alla okkar starfsemi niður í lítil hólf til þess að virða samkomutakmarkanir og sumt af okkar fólki vann að heiman til lengri tíma. Það eru fjórir einstaklingar sem vinna inni í verksmiðjunni okkar og við bjuggum til plan sem var ætlað að tryggja að þeir myndu ekki allir hverfa frá vinnu á sama tíma vegna veikinda eða sóttvarnaráðstafanna. Þannig var komið í veg fyrir að framleiðslan stöðvaðist. Það er mjög algengt að við séum að senda fóður til bænda á um hálfsmánaðar fresti og ef við hefðum ekki getað komið fóðrinu til skila hefði myndast stórt vandræðaástand."

Hólmgeir bendir á að í þessu faraldursástandi hafi innlend matvælaframleiðsla sannað gildi sitt og minnt landsmenn á hversu mikilvægt það sé að þjóðin geti stólað á eigin framleiðslu. „Bæði bændur og við sem erum að þjónusta landbúnað höfum mjög mikla trú á gildi íslensk landbúnaðar og innlendrar matvælaframleiðslu til framtíðar. Ég trúi því að þetta ástand muni stuðla að jákvæðari umræðu og varpa ljósi á mikilvægi þeirra sem eru að framleiða matvælin okkar."

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem kom út á dögunum og unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .