Geta Landspítala til að taka á móti sjúklingum hefur verið til umræðu undanfarið, ekki síst eftir að Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, bar sjúklingafjölda nú saman við fjölda í svínaflensufaraldrinum 2009 í Silfrinu á RÚV á sunnudaginn var.

Benti hún á að þennan dag fyrir 12 árum, 31. október, hefðu 43 verið inniliggjandi vegna flensunnar og þar af 11 á gjörgæslu, en daginn fyrir viðtalið voru 13 inniliggjandi með Covid, þar af fjórir sem lágu inni af öðrum ástæðum og fjórir á gjörgæslu. Svanhildur spurði í þessu samhengi hvað hefði breyst á þessum 12 árum sem gerði það að verkum að í dag stefndi í neyðarstig og harðari aðgerðir en ekki þá.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði daginn eftir, í samtali við Vísi, samanburð Svanhildar ekki sanngjarnan. Hann sagði sjúkdómana gjörólíka og benti m.a. á að sá faraldur hefði staðið mun skemur, bóluefni komið tiltölulega fljótt og verið virkara og betra, og að lyfið Tamiflu hefði virkað mjög vel væri það gefið snemma. Þá benti hann á að fleiri pláss hefðu verið á gjörgæslu á þeim tíma, að alvarleiki Covid-19 sjúkdómsins væri meiri og að Covid-19 hefði staðið lengur yfir sem yki þreytuna í öllu kerfinu.

Svör farsóttarnefndar voru á sömu leið og Þórólfs, helst bættist þar við að rakning, einangrun og sóttkví sem nú er beitt hefðu umtalsverð áhrif á starfsemi Landspítala. Þá vísar nefndin til þess að árið 2009 hafi verið 900 rúm á spítalanum og 18 gjörgæslurými en í dag séu rúmin 640 og gjörgæslurýmin 14.

Það er óumdeilt að svínaflensufaraldurinn og kórónuveirufaraldurinn eru ólíkir, en svara Þórólfur og farsóttarnefnd í reynd spurningu Svanhildar?

Afkastageta spítala í faraldri

Björn Zoëga, forstjóri Karólínska háskólasjúkrahússins í Stokkhólmi, sagði frá því í Dagmálum í ágúst síðastliðnum hvernig spítalanum tókst að fimmfalda fjölda gjörgæslurýma í upphafi kórónuveirufaraldursins. Skömmu áður en faraldurinn skall á hafði Björn sagt upp 550 skrifstofumönnum og um 400 læknum og sjúkraliðum til að sporna við hallarekstri. Frá því að gripið var til þeirra aðgerða hafði rúmum á spítalanum verið fjölgað um fjórðung.

Svíar voru gagnrýndir fyrir að mæta faraldrinum af léttúð og í Dagmálum var Björn spurður að því hvort hann óttaðist að ástandið myndi kafsigla spítalann. Hann svaraði því til að margir aðrir hefðu óttast það en hann sjálfur hafi séð möguleika á að taka við enn fleiri sjúklingum þótt það yrði vissulega krefjandi.

Eftir 20 mánaða heimsfaraldur eru gjörgæslurými hér fimmtungi færri en í svínaflensunni og rúm þriðjungi færri, en á þessum 12 árum hefur mannfjöldi aukist um 50 þúsund og ferðamönnum fjölgað mikið. Það vakti athygli þegar gjörgæslurýmum var fækkað niður í 10 á Landspítala og 2 á Sjúkrahúsinu á Akureyri síðastliðið sumar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .