Helsta áhyggjuefni markaða undanfarna daga hefur verið gífurleg verðbólga sem mælst hefur í Bandaríkjunum, Bretlandi, Evrópusambandslöndum og víðar. Þar spila ýmsir þættir inn í, meðal annars áður óséðar launahækkanir og erfiðleikar í framleiðslukeðjunni, en Efnahags- og framfarastofnunin. OECD. væntir þess að verðbólga nái hámarki í lok þessa árs en dragist saman á næsta ári.

Spjótin beinast að Powell

Í Bandaríkjunum hafa spjótin beinst að seðlabankastjóranum Jerome Powell í síauknum mæli. Sérstaka vanþóknun vakti málflutningur hans fyrr á árinu að hækkandi verðbólga þar í landi væri einungis tímabundin (e. transitory), en á þingnefndarfundi í Bandaríkjunum á dögunum viðurkenndi hann að ákveðnir áhættuþættir væru til staðar sem gætu leitt til langvarandi verðbólgu. Líkt og margir seðlabankastjórar greip Powell til vaxtalækkana vegna kórónuveirufaraldursins, en í þokkabót voru skuldabréfakaup Seðlabanka Bandaríkjanna aukin umtalsvert. Hefur Powell vakið umtalsverða athygli fyrir mjúka peningastefnu og öðlast einhvers konar „költ" stöðu innan fjármálageirans. Undanfarið hefur hann þó reynt að undirbúa fjármálamarkaði fyrir breytta tíma og sagði meðal annars að dregið yrði úr framangreindum skuldabréfakaupum jafnt og þétt næstu mánuði.

Sérfræðingar hafa hins vegar kallað eftir hraðari og sterkari aðgerðum af hálfu Powells eftir að verðbólga í Bandaríkjunum mældist 6,8%, sem er hæsta verðbólga þar í landi á ársgrundvelli í hartnær 40 ár. Seðlabanki Bandaríkjanna tilkynnti í gær að hann myndi draga tvöfalt hraðar úr skuldabréfakaupum en áður var stefnt að, eða um 30 milljarða Bandaríkjadala á mánuði. Slík aukning muni gera bankanum mögulegt að hefja vaxtahækkanir í lok mars þegar skuldabréfakaupum ljúki. En Seðlabanki Bandaríkjanna stefnir að því að hækka vexti í þrígang á næsta ári.

Ekki hærri í áratug í Bretlandi

Greint var frá því í gær að verðbólga í Bretlandi hefði mælst 5,1% og hefur hún ekki verið hærri í áratug. Englandsbanki sendi svo frá sér yfirlýsingu í dag þar sem tilkynnt var að stýrivextir yrðu hækkaðir um 0,15 pósentustig en það er í fyrsta skipti sem bankinn hækkar vexti síðan heimsfaraldurinn hófst. Sumir sérfræðingar bjuggust við því að bankinn myndi halda aftur af sér vegna hugsanlegra áhrifa Ómikrón-afbrigðisins á hagkerfið, en sóttvarnaraðgerðir breskra stjórnvalda eru nú meðal þeirra hörðustu í Evrópu. Stýrivextir í Bretlandi voru 0,1% og höfðu aldrei verið lægri þar í landi. Búist var við því að peningastefnunefnd Englandsbanka myndi hækka vexti í síðasta mánuði en hún hélt þeim föstum með sjö atkvæðum gegn tveimur. Í ljósi þess að verðbólga hefur haldið áfram að fjarlægjast 2% markmið bankans kemur ákvörðun dagsins því ekki á óvart.

Fjöldi Evrópulanda glímir einnig við mikla verðbólgu, en hún mældist 4,9% á evrusvæðinu í heild, sem er það hæsta í sögu evrunnar. Lönd á borð við Þýskaland, Holland, Grikkland og Spán glíma einnig öll við verðbólgu um eða yfir fimm prósentum.