Yfirvöld í London sektuðu 5 ára stúlku um 150 pund fyrir að selja límonaði til tónleikagesta fyrir 50 pens. Ástæða sektarinnar var sú að stúlkan hafði ekki tilskilin leyfi fyrir sölunni. BBC greinir frá

Samkvæmt föður stúlkunnar Andre Spicer, hafði dóttir hans sett upp lítinn sölustað þar sem þúsundir tónleikagesta voru á leið á Lovebox tónlistarhátíðina. Þegar hún hafi verið sektuð hafi hún farið að hágráta og sagt við föður sinn „ég gerði eitthvað af mér".

Faðir hennar segir að hún hafi viljað fá fólk til að brosa og hún verið mjög ánægð með sig. Gleðin tók hins vegar fljótt enda þegar lögreglumenn komu að stúlkunni og hófu að lesa upp greinargerð um að hún hafi ekki tilskilin leyfi til sölu og sektuðu hana um 150 pund fyrir ólöglega sölustarfsemi.

Eftir að atvikið átti sér stað höfðu yfirvöld í Austur-London samband við föður stúlkunnar og afturkölluðu sektina og báðust innilega afsökunar á dómgreindarleysi lögreglumannanna.