Danski lífeyrissjóðurinn AkademikerPension, hefur ákveðið að selja 3 milljóna dala hlut sinn í lággjaldaflugfélaginu Wizz Air vegna kjaradeilna innan flugfélagsins. Þetta kemur fram í frétt hjá Bloomberg .

Flugfélagið hefur forðast stéttarfélög og leggur mikið upp úr því að lágmarka launakostnað, að því er kemur fram í grein Bloomberg. Rekstrarkostnaður félagsins, sem er með höfuðstöðvar í Búdapest, er með því lægsta sem þekkist í Evrópu. Félagið er að bæta við flugleiðum í Vestur-Evrópu, þar sem vinnuréttur er rótgróinn og fjárfestum umhugað um samfélagslega ábyrgð.

Wizz Air hefur nokkrum sinnum verið stefnt fyrir mismunun gagnvart starfsfólki. Árið 2019 dæmdi Hæstiréttur Rúmeníu Wizz Air til að mynda í óhag, þegar félagið sagði upp starfsfólki fyrir að stofna og ganga til stéttarfélags.

AkademikerPension, sem sýslar með 23 milljarða Bandaríkjadala, jafnvirði tæpum 3 þúsund milljörðum króna, sagði í tilkynningu að verkalýðsfélög séu grundvallarmannréttindi. Jens Munch Holst, forstjóri sjóðsins, segir hegðun Wizz Air stangast á við mannréttindi og réttindi launafólks.

Breska fjárfestingafélagið Ardevora Asset Management hefur fylgt fordæmi lífeyrisjóðsins og dregið fjárfestingar sínar úr flugfélaginu.