Bandaríski vogunarsjóðurinn Och-Ziff Capital, næst stærsti hluthafi Arion banka, hefur selt hlutabréf í Arion fyrir tæplega 3,6 milljarða króna. Í kjölfar sölunnar minnkar hlutdeild sjóðsins í Arion um 2,3 prósentustig, frá þessu herma heimildir Markaðarins.

Í kjölfar viðskiptanna er téður sjóður orðinn þriðji stærsti hluthafi Arion og nemur eignarhluturinn 7,6%.  Viðskiptin fóru fram eftir lokun markaða í gær og höfðu Fossar markaðir umsjón með þeim.

Samkvæmt heimildum Markaðarins voru kaupendur að bréfunum breiður hópur fagfjárfesta. Viðskiptin áttu sér stað á genginu 89,5 krónur á hlut en þetta er í fyrst sinn sem sjóðurinn selur í Arion frá því að hann kom inn í hluthafahóp bankans.

Och-Ziff Capital varð hluthafi vorið 2017. Þá keypti sjóðurinn ásamt tveimur öðrum erlendum vogunarsjóðum og fjárfestingabankanum Goldman Sachs nærri 30% hlut í Arion af eignarhaldsfélaginu Kaupþingi fyrir um 49 milljarða króna.

Stærsti hluthafi Arion banka er bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic Capital með ríflega 23% hlut. Gildi lífeyrissjóður er næst stærsti hluthafinn með tæplega tíu prósenta hlut.