Að mati Lúðvíks Bergvinssonar, fyrrverandi lögmanns erfingja Tryggva Rúnars Leifssonar við endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálanna, var skringilega staðið að uppgjöri við fjölskylduna. Uppgjör bótanna fór fram í janúar 2020, en þá fengu ekkja og dóttir hans 85,5 milljónir króna hvor um sig auk tæpra 4,3 milljóna í lögmannskostnað hvor. Bæturnar voru skattfrjálsar og munu ekki skerða framtíðargreiðslur úr almannatryggingum eða lífeyrissjóði.

Þegar fregnir af útgreiðslu bóta bárust setti Lúðvík sig í samband við Pál Rúnar M. Kristjánsson, nýjan lögmann fjölskyldunnar, en bæturnar vegna lögmannskostnaðar voru greiddar beint til erfingjanna. Segir í málsvörn Lúðvíks fyrir nefndinni að hann teldi það „sérstakt og almennt ekki í samræmi við tilefni bótagreiðslna, að sérstakar bætur skuli greiddar beint til erfingja sem taki þær til sín þegar liggur fyrir að þeir hafi ekki innt af hendi neinar greiðslur til lögmanna, a.m.k. ekki til [sín].“  Í kjölfar þessa sendi hann ekkju Tryggva fyrrgreindan reikning.

tölvupóstum sem gengu manna á milli sögðu erfingjarnir meðal annars að þeir myndu „standa við að greiða [Lúðvík] og mun [Páll Rúnar, nýr lögmaður okkar] gera kröfu um þóknun til þín við uppgjör málsins.“ Í bréfi hins nýja lögmanns til Lúðvíks kom fram sú skoðun hans að rétt væri að senda reikninginn á erfingjana, enda væri hann óviðkomandi rekstri málsins hjá Páli. Hann ætti þó von á því að bæturnar yrðu greiddar inn á vörslureikning hjá stofu sinni áður en til útgreiðslu til erfingja kæmi. „Persónulega tæki ég samt mið af eðli málsins (bótauppgjör) og því að þetta er borgunarfólk sem engin ástæða er til að efast um að muni greiða skuldir sínar,“ sagði í skeyti Páls.

Í kæru erfingjanna til úrskurðarnefndar lögmanna segir að á engum tímapunkti hafi Lúðvík gert þeim grein fyrir því að hann hygðist fara fram á frekari greiðslur en yrðu dæmdar eða úrskurðaðar úr ríkissjóði. Reikningurinn væri því tilefnisog tilhæfulaus með öllu. Hvað síðari lið reikningsins varðaði hefði Lúðvík „endurtekið talað niður fjárkröfur fjölskyldunnar á hendur íslenska ríkinu“ og sagt „að kærandi og fjölskylda mættu hreinlega ekki við því að taka við eins miklum peningum og krafist væri, þeir myndu einungis spilla“. Sú skoðun ættingjanna, og sú staðreynd að í drögum að samkomulagi var ekki áskilinn réttur til að stefna ríkinu til heimtu frekari bóta, varð til þess að þau skiptu um lögmann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .