Undirbúningur að skráningu Saudi Aramco , ríkisolíufyrirtækis Saudi Arabíu á hlutabréfamarkað er nú í fullum gangi og gæti átt sér stað strax á næsta ári eins og fjallað var um á dögunum. Samkvæmt frétt Financial Times hafa stjórnvöld þar í landi sett töluverðan þrýsting á efnamiklar fjölskyldur í landinu um að verða kjölfestufjárfestar í þeim hlutum sem settir verða á markað og svo virðist sem ekki hafa einungis verið notast við hefðbundna samningatækni í viðræðunum.

Aðgerðirnar eru liður í að ná markmiðum stjórnvalda í landinu um að markaðsvirði Saudi Aramco verði 2.000 milljarðar dollara en ráðgert er að selja 3% af hlutum félagsins á markaði. Samkvæmt heimildarmönnum FT, sem starfa við að efla trú á skráningunni eftir drónaárásir á framleiðslustöðvar fyrirtækisins um síðastliðna helgi, er markmiðað að setja mikinn þrýsting á efnamiklar fjölskyldur í landinu um að verða kjölfestufjárfestar í Saudi Armaco. Í því fólst meðal annars að beita þvingunaraðgerðum og jafnvel líkamsmeiðingum til að ná fram markmiðum stjórnvalda.

Meðlimir margra af þeim fjölskyldum sem stjórnvöld hafa beint spjótum sínum að voru meðal þeirra  rúmlega 200 sem voru í haldi stjórnvalda á Ritz Charlton hótelinu í Riyadh árið 2017 og 2018 í aðgerðum  gegn spillingu í landinu. Samkvæmt heimildum FT var pyntingum beint í aðgerðunum og þurftir sumir af þeim sem í haldi voru að gefa eftir allt að 70% af eignum sínum í skiptum fyrir frelsi.

Samkvæmt ráðgjafa eins af þeim sem í haldi voru hefur verið settur þrýstingur á hann um að fjárfesta fyrir allt að 100 milljónir dollara. „Það er verið að hvetja hann til að sinna þjóðrækni við konungdæmið en það eru hins vegar takmörk á hversu þjóðrækinn hann vill vera,“ sagði ráðgjafinn.

Samkvæmt öðrum heimildarmanni munu sumir aðilar eiga erfiðara með að segja nei við kröfum stjórnvalda en aðrir. Eignir sumra þeirra eru enn frystar eftir aðgerðirnar á Ritz-Charlton en stjórnvöld hafa boðið þeim aðilum að þær verði affrystar gegn því að fjármunirnir fari í fjárfestingu í Saudi Aramco. Að mati eins viðmælanda FT sem starfar fyrir einn af fjárfestingabönkunum ætti þetta að vera auðveld ákvörðun fyrir þessa aðila þar sem þeir muni ekki annars geta komist í fjármunina.

Tilbúin að gera það sem þarf

Samkvæmt FT þykja aðgerðirnar gefa til kynna hve langt stjórnvöld eru tilbúinn að ganga til þess að útboðið verði að veruleika. Þá þykir það einnig varpa óþægilegu ljósi á ráðgjafa banka á vesturlöndum sem hafa flykkst til Ryiadh til þess að fá hlutverk ráðgjafa við skráninguna en nær allir af stærstu fjárfestingabönkum heims horfa hýru auga til skráningarinnar sem yrði sú langstærsta í sögunni en meðal þeirra eru Goldman Sachs, JP Morgan, Morgan Stanley og Credit Suisse.

Greint var frá því á dögunum að undirbúningur væri aftur hafinn við skráningu Saudi Aramco eftir að hafa verið settur á ís. Kom það aðallega til af því að verðmat fjárfestingabanka var ekki í samræmi við 2.000 milljarða dollara verðmat stjórnvalda og óttuðust stjórnvöld að skráning á lægra verði gæti reynst vandræðaleg fyrir krónprinsinn Mohammed bin Salman. Bjartsýni stjórnvalda jókst hins vegar til muna eftir vel heppnað 12 milljarða dollara skuldabréfaútboð Saudi Aramco í apríl síðastliðnum. Sumir af þeim fjárfestingabönkum sem hafa fengið hlutverk við skráninguna hafa sagt við stjórnvöld í landinu að þeir munu ná 2.000 milljarða takmarkinu samkvæmt FT.

Hátt verðmat

Mörgum greinendum þykir verðmatið á fyrirtækinu hins vegar helst til hátt auk þess sem þeir telja pólitískan óstöðugleiki í landinu og á Arabíuskaganum ógna fyrirtækinu eins og drónaárásirnar um síðustu helgi eru til marks um. Telja margir þeirra að verðmat á bilinu 1.000 til 1.500 milljarðar dollara sé raunhæfara.

Saudi Aramco skilaði 111 milljarða dollara hagnaði á síðasta ári sem myndi þýða VH hlutfall upp 18 miðað við 2.000 milljarða dollara verðmat. Er það hærra hlutfall en samanburðarfyrirtækja sem skráð eru á markað en þess má geta að VH hlutfall  Royal Dutch Shell er nú 11,9, hjá British Petrolium er hlutfallið 14,9 og hjá Exxon Mobil er hlutfallið 17,4. Meðaltal þeirra því um 14,7 sem myndi þýða verðmat upp á 1.635 milljarða dollara.

Þá var dróst hagnaður Saudi Aramco saman um 12% á fyrri helmingi þessa árs og nam 46,9 milljörðum dollara. Yrði það samdráttarniðurstaðan í lok árs, myndi hagnaður þess nema 97,68 milljörðum dollara á árinu sem myndi þýða verðmat upp á 1.439 milljónir dollara miðað við meðaltal VH hlutfall samanburðarfyrirtækjanna.