Heildarhagnaður Símans á síðasta ári nam 5,2 milljörðum króna á síðasta ári, þar af nam hagnaður af aflagðri starfsemi 3,5 milljörðum. Velta Símans jókst um 2,6% frá fyrra ári og nam 24 milljörðum króna. Þetta kemur fram í ársuppgjöri sem Síminn birti eftir lokun Kauphallarinnar í dag.

Stjórn félagsins leggur til að greiddar verða út 500 milljónir í arð á næsta ári. Þá hyggst félagið lækka hlutafé til jöfnunar eigin hluta sem námu 240 milljónum að nafnverði ásamt því að óskað verður eftir heimild til endurkaupa eigin bréfa fyrir allt að 10% hlutafé félagsins.

Hagnaður á fjórða ársfjórðungi 2021 nam 654 milljónum samanborið við 403 milljóna tap á síðasta ári. Í fjárfestakynningu Símans segir að EBITDA hagnaður hafi numið 2,5 milljörðum á fjórðungnum og aukist um 5% á milli ára (leiðrétt fyrir 300 milljóna lækkun stjórnvaldssektar á síðasta fjórðungi 2020).

Tekjur á fjórðungnum voru nær óbreyttar og námu 6,7 milljörðum. Samdráttur var í vörusölu, gagnaflutningi og talsímatekjum. Hins vegar jukust tekjur af farsímaþjónustu um 6% sem skýrist aðallega af því að reikitekjur jukust um 60 milljónir á milli ára sem er meira en tvöföldun frá fyrra ári. Tekjur af Sjónvarpi Símans Premium hækkuðu um 11% á milli ára en tekjur af Síminn Bíó og endursölu erlendra rása drógust saman.

Bíða með að kynna framtíðarstefnu og ráðstöfun söluandvirðis Milu

Síminn náði samningum í október um sölu á Mílu til innviðasjóðs franska sjóðastýringarfyrirtækisins Ardian. Heildarvirði Mílu í viðskiptunum er 78 milljarðar króna og áætlaður söluhagnaður Símans 46 milljarðar króna að teknu tilliti til kostnaðar vegna viðskiptanna. Gerður var heildsölusamningur á milli Símans og Mílu til 20 ára sem tekur gildi við afhendingu félagsins.

Í fjárfestakynningunni segir að „ljóst er að geta félagsins til ytri vaxtar og/eða arðgreiðslna verður umtalsverð“. Hins vegar hyggst félagið bíða þar til niðurstaða úr rannsókn Samkeppniseftirlitsins um söluna liggur fyrir þar til hugmyndir um framtíðarstefnu og ráðstöfun söluandvirðis Mílu verða bornar undir hluthafa.

Samstæða Símans var endurfjármögnuð í aðdraganda sölu Mílu og um 8 milljarðar króna greiddar til hluthafa með niðurfærslu hlutafjár.

„Móðurfélagið er þrátt fyrir það hóflega skuldsett og enn fjármagnað með hlutafé í mun meiri mæli en eðlilegt er til lengri tíma. Stefnt er á að færa fjármagnsskipan Símans í hagkvæmari stöðu eftir að sölunni á Mílu hefur verið lokið. Fram að því verður fjárfestingum í innri kerfum og ferlum félagsins hraðað og haldið áfram að kaupa eigin bréf,“ er segir Orri Hauksson, í tilkynningu með uppgjörinu. Hann bætir einnig við aukinn þungi sé í 5G uppbyggingu.

Síminn gekk einnig frá 3,7 milljarða króna sölu á Sensa til Crayon Group fyrir rúmu ári síðan. Söluhagnaður af Sensa nam 2,2 milljörðum.

„Árið í ár mun markast af nýju upphafi Símans sem sjálfstæðs þjónustufélags með innan við 300 starfsmenn. Félagið byggir nú á léttum efnahag og sveigjanlegum rekstri, með framúrskarandi birgja og metnaðarfullt þjónustuframboð í fjarskiptatækni, sjónvarpi og fjártækni. Frekari tækifæri til tekjuvaxtar félagsins eru jafnframt til skoðunar,“ segir Orri.