Dómstóll í Jersey, eyju í Ermarsundi undan strönd Normandí, hefur lagt fram skipun um að frysta eignir sem eru taldar tengjast rússneska ólígarkanum Roman Abramovich. Þetta kemur fram í grein hjá Financial Times . Eyjan er þekkt skattaskjól, og er hluti af Bresku Jómfrúareyjunum og ber Bretland ábyrgð á vörnum eyjarinnar.
Eignirnar eru meira en 7 milljarða dala virði, en þær eru annað hvort staðsettar í Jersey eða í eigu aðila sem hafa aðsetur á eyjunni, að því er kemur fram í yfirlýsingu breska ríkisins.
Eignafrystingin er enn eitt höggið fyrir Abramovich, sem hefur þurft að sætta sig við eignafrystingar og viðskiptaþvinganir í kjölfar þess að Vladimír Pútín skipaði her sínum að ráðast inn í Úkraínu.
Sjá einnig: Hver kaupir Chelsea?
Eignir Abramovich í Bretlandi voru frystar vegna tengsla hans við Pútín. Meðal frystaðra eigna er enska fótboltafélagið Chelsea FC, en búist er við því að söluferli á félaginu muni ljúka í næsta mánuði. Abramovich mun ekki fá krónu fyrir söluna.
Viðskipti með bréf í álframleiðandanum Evraz hafa auk þess verið stöðvuð, en Abramovich hefur hagnast vel á fyrirtækinu.