Skeljungur leiddi hækkanir á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Olíufyrirtækið hækkaði um 7,4% en hlutabréfagengið tók stökk eftir að félagið tilkynnti um einkaviðræður um sölu á færeyska dótturfélaginu P/F Magn fyrir 10 milljarða króna. Velta með hlutabréf Skeljungs nam þó einungis 46 milljónum króna í dag.

Origo hækkaði næst mest allra félaga Kauphallarinnar eða um 2,8% í 392 milljóna viðskiptum. Hlutabréf upplýsingatæknifyrirtækisins hafa verið á siglingu að undanförnu og hafa nú hækkað um nærri 18% frá því í byrjun ágúst. Gengi Origo hefur aldrei verið hærra og stóð í 56 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar.

Mesta veltan var með hlutabréf Kviku sem hækkuðu um 1,7% í nærri 1,2 milljarða viðskiptum. Hlutabréfaverð bankans stendur nú í 24,4 krónum á hlut en bankinn hefur nú hækkað um 130% á einu ári. Markaðurinn sagði frá því að Landsbankinn hafi verðmetið Kviku á 28,9 krónur sem er um 18,4% yfir lokagengi Kviku í dag. Þrír stjórnendur bankans seldu hlutabréf í bankanum í gær fyrir samtals 276 milljónir króna.

Tryggingafélögin tvö í Kauphöllinni hækkuðu bæði í viðskiptum dagsins. Sjóvá hækkaði um 1,6%, þó í aðeins 55 milljóna veltu, og náði sínu hæsta dagslokagengi frá skráningu í 38 krónum á hlut. VÍS hækkaði sömuleiðis um 1,4%.