Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri segir útlit fyrir að ársreikningar skili sér betur í ár en nokkru sinni fyrr. Um 70% félaga með skilaskyldu höfðu skilað í gær og býst hann við miklum skilum næstu daga, en lokafresturinn rann út í gær. Í ár eru rúmlega 38 þúsund félög með skilaskyldu sem er aukning um 6% á milli ára að því er Morgunblaðið greinir frá.

Skilin hafa batnað undanfarin ár jafnt og þétt en á sama tíma í fyrra höfðu 48,4% félaga skilað ársreikningum fyrir lokafrest og árið 2013 var hlutfallið 39,7%. Skúli segir nokkra þætti valda þessu, þar með talið breytt refsiákvæði, sem gerir embættinu kleyft að byrja að sekta fyrir vanskil í næstu viku.

Áður hafi það tekið lengri tíma að geta hafið sektarboð, en þó er veittur allt að 90% afsláttur af sektum eftir því hve tímanleg skilin eru. „Í öðru lagi eru skilin orðin mun einfaldari fyrir smáfélög en þau voru áður vegna tilkomu Hnappsins sem útbýr ársreikning sjálfvirkt á grundvelli skattframtals. Nú þarf raunverulega bara að gefa eina skipun til að útbúa ársreikning,“ segir Skúli.