Sigurður Pálsson, forstjóri BYKO, er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar, sem kom út nýverið. Þar fer Sigurður um víðan völl og kemur m.a. inn á stöðuna á fasteignamarkaði. Óhætt er að segja að hann hafi sterkar skoðanir á íslenska byggingar- og húsnæðismarkaðnum. „Byggingamarkaðurinn hefur í gegnum tíðina verið mjög sveiflukenndur, uppsveiflur hafa yfirleitt enst í u.þ.b. fimm ár en markaðurinn svo tekið skarpa dýfu. Ég hef aldrei skilið almennilega af hverju þróunin þarf að vera þannig. Undanfarin ár höfum við þó upplifað eitt lengsta samfellda uppgangsskeið í sögu byggingamarkaðarins á Íslandi."

Hann segir stöðuna á húsnæðismarkaði hér á landi hafa verið eins í fjölda ára og hún hafi einkennst af íbúðaskorti. „Ég leyfi mér stundum að efast um skilning fólks sem stýrir sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, þá sérstaklega í höfuðborginni, á viðfangsefninu. Þegar rýnt er í gögn um íbúafjöldaspá sem Hagstofa Íslands gefur út má sjá að þær spár hafa gengið nokkuð vel eftir í sögulegu samhengi. Að sama skapi er það ljóst að byggja þarf að jafnaði um tvö þúsund íbúðir á hverju ári til þess að viðhalda jafnvægi milli fjölda íbúa og fjölda íbúða."

Af einhverjum ástæðum hafi það þó ekki verið gert. „Eftir að hrunið skall á árið 2008 var nærri ekkert íbúðahúsnæði byggt í nokkur ár á eftir og þ.a.l. myndaðist umfram eftirspurn. Nú er árið 2022 og enn hefur ekki tekist að ná jafnvægi. Það er mikill skortur á íbúðum og of lítið af lóðum er úthlutað." Hann segir langstærsta sveitarfélag landsins, Reykjavíkurborg, bera hvað mestu ábyrgð á ástandinu. „Borgin hefur staðið sig hvað verst í að úthluta lóðum. Þegar íbúðaskortur er ríkjandi hækkar fasteignaverð og það fer beint inn í verðbólguna sem skilar sér svo beint í minni kaupmætti heimilanna. Af einhverri ástæðu horfir Reykjavíkurborg ekki til þessara gagna og dregur lappirnar við að úthluta lóðum, sem veldur ójafnvægi. Samkvæmt tölum frá Samtökum iðnaðarins þarf á næstu tíu árum að byggja í það minnsta 3.500 íbúðir á ári til þess að ná jafnvægi," segir Sigurður, og beinir næst spjótum sínum að digurbarklegum ummælum borgarstjórans Dags B. Eggertssonar um uppbyggingu íbúða í Reykjavík.

„Svo koma stórar fyrirsagnir frá borgarstjóra, t.d. á síðasta iðnþingi Samtaka iðnaðarins og í viðtölum við fjölmiðla, um að stærsta uppbyggingartímabil Reykjavíkurborgar sé hafið. En þegar rýnt er nánar í gögnin er ekki að sjá að svo sé, því það er stefnt á að byggja tíu þúsund íbúðir í Reykjavík á næstu tíu árum. Það gera þúsund íbúðir á ári og þar af eru nær 90% íbúðanna í fjölbýli, þrátt fyrir að augljós skortur sé á sérbýli. Það vantar bersýnilega fjölbreyttari eignir inn á markaðinn," segir hann og veltir fyrir sér af hverju fólk láti þessar stóru fyrirsagnir fram hjá sér fara.

„Gögnin segja að við þurfum að byggja 3.500 íbúðir á ári til að ná jafnvægi, sem er mikið hagsmunamál fyrir heimilin. Samt geta stjórnmálamenn leyft sér að setja fram svona stórar yfirlýsingar án þess að nokkur bendi á að uppbygging á þúsund íbúðum á ári dugi skammt. Það getur vel verið að þetta sé mesta uppbyggingarskeið í langan tíma í borginni, en það breytir því ekki að það er ekki verið að byggja upp í eftirspurnina. Stundum veltir maður fyrir sér hvort stjórnmálamönnum veiti ekki af að prófa að starfa í einkafyrirtæki áður en þeir fara inn í sveitarstjórnir," segir Sigurður, sem finnst skorta raunverulegan skilning á stöðunni innan raða stjórnarmeirihlutans í borginni.

Hann segir verktaka að sama skapi lítið botna í stjórnsýslunni. „Sem dæmi geta liðið tvö ár frá því að verktaki kaupir sér lóð þar til búið er að koma öllu í gegnum skipulagsferlið og framkvæmdir geta loks hafist. Á þessum tveimur árum gerist margt og t.d. fellur til fjármagnskostnaður þar sem nokkur fjárbinding er í lóðinni."

Nánar er rætt við Sigurð í tímariti Frjálsrar verslunar sem var að koma út. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér .