Ein birtingarmynd á aukinni eftirspurn eftir áli er að skortur hefur myndast á áldósum á heimsvísu undanfarin misseri. Ýmsar ástæður hafa verið nefndar fyrir því. Í umræðunni hefur borið á því að vandamálið tengist helst eftirspurnarhliðinni. Hækkandi álverð, vandamál í vöruflutningum milli landa og breytt neyslumynstur neytenda í heimsfaraldri er meðal algengra orsaka fyrir skortinum sem bent hefur verið á.
Einar Snorri Magnússon, forstjóri Coca Cola European Partners á Íslandi (CCEP), segir drykkjarvöruframleiðandann hafa sloppið nokkuð vel frá skortinum á þessu ári og fengið allar þær dósir sem sóst hafi verið eftir.
„Það hefur klárlega hjálpað okkur að vera hluti af þessu stóra batteríi sem Coca Cola European Partners er," segir Einar Snorri „Móðurfélagið hefur þurft að hafa sig allt við til að tryggja það að allar framleiðslueiningar þess fái nógu margar dósir. Þessi skortur hefur þó gert það að verkum að innkaupaverð áldósanna hefur hækkað, sem veldur því að verð til neytenda hækkar."
Hann bendir á að í faraldrinum hafi myndast aukin eftirspurn eftir áldósum í drykkjarvöruiðnaðinum á kostnað annarra umbúða.
„Vegna samkomutakmarkana hefur dregið úr eftirspurn veitingageirans eftir drykkjarvöru í glerflöskum, bjór úr kútum og gosi af dælum, sem hefur verið talsverður hluti af magninu sem selt er frá drykkjarvöruframleiðendum. Á hinn bóginn hefur eftirspurn eftir drykkjarvörum úr dósum, t.d. gosi og bjór, aukist verulega." Einar segir vísbendingar uppi um að dósaskorturinn muni vara fram á næsta ár. Því hafi CCEP reynt að leggja meiri áherslu á aðrar umbúðir en dósir til þess að bregðast við stöðunni.
Stærsti samkeppnisaðili CCEP hér á landi, Ölgerðin Egill Skallagrímsson, hefur að sama skapi ekki farið varhluta af dósaskortinum. Í síðustu viku sendi fyrirtækið frá sér tilkynningu þar sem viðskiptavinir voru beðnir velvirðingar á ástandinu sem hafi orðið til þess að skortur myndaðist á vinsælum drykkjum á borð við Mexican Lime Kristal og Pepsi Max. Leyst verði úr því innan nokkurra daga. Fyrirtækið sé á sama báti og fyrirtæki út um allan heim; að fá ekki nægilegt magn miðað við eftirspurn. Viðbúið sé að þetta ástand vari fram til áramóta, en eftir það sé reiknað með að ástandið verði komið í eðlilegt horf.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .