Forseti Chile, Sebastián Piñera, gæti þurft að yfirgefa embættið eftir að sala hans á jörðu til námufyrirtækis árið 2010 var tekin fyrir í Pandóruskjölunum. Meirihluti neðri deildar síleska þingsins greiddu atkvæði með ákæru á hendur Piñera í dag. Nú er það undir efri deild þingsins komið að ákveða hvort víkja eigi 71 árs gamla forsetanum úr embætti. Financial Times greinir frá.

Í Pandóruskjölunum er haldið því fram að Piñera hafi, í gegnum félag í eigu barna sinna, selt námufyrirtækinu Dominga jörð árið 2010 fyrir 152 milljónir dala. Í kaupsamningnum, sem var undirritaður á Bresku Jómfrúareyjunum, var ákvæði um að síðasta greiðslan færi aðeins í gegn ef jörðin verði ekki skilgreind sem umhverfislega viðkvæmt svæði.

Skilyrðinu á að hafa verið uppfyllt af ríkisstjórn Piñera en hann tók við embættinu árið 2018. Alþjóðlegu samtök rannsóknarblaðamanna (ICIJ), sem standa að baki Pandóruskjalanna, segja þó að námuverkefnið bíði enn eftir starfsleyfi.

Piñera tjáði sig ekki um niðurstöðu neðri deildarinnar en hann hafði áður hafnað ásökunum og sagðist ekki vera meðvitaður um smáatriði kaupsamningsins. Lögmaður hans lýsti ákærunni sem „pólitísku kosningabragði“ en kjörtímabilinu lýkur þann 11. mars næstkomandi. Ráðherrar síleska þingsins hafa lýst yfir stuðningi við forsetann.