Margir töldu að eftirspurn eftir skrifstofuhúsnæði myndi dragast saman eftir heimsfaraldurinn enda sýndi það sig að skrifstofufólk gæti vel unnið heima, í það minnsta hluta úr vinnuvikunni.

Á sama tíma hefur það verið í umræðunni að hægt sé að fækka skrifborðum og hafa þannig færri borð en starfsfólk, enda sýni reynslan að einhver hluti starfsfólks sé oft staðsettur utan skrifstofunnar. Ætli fyrirtæki að spara í slíkum leiðum geti það komið í bakið á því. „Okkar reynsla og rannsóknir sýna að heimilið er ekki góður vinnustaður heilt yfir. Það getur verið gott að vinna heima hluta úr degi ef fyrirtæki skaffa starfsfólk ekki aðstöðu til dæmis fyrir næðisvinnu, en afköstin hrynja þegar börnin koma heim,“ segir Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar fasteignafélags

„Starfsfólk á Íslandi er dýrt en leiga á skrifstofuhúsnæði lág í alþjóðlegu samhengi. Gróflega má áætla að kostnaður fyrirtækis við einn starfsmann á skrifstofu sé um milljón á mánuði að jafnaði þegar allt er talið. Á sama tíma kosta fimm viðbótarfermetrar á starfsmann í skrifstofuhúsnæði líklega um fimmtán þúsund krónur á mánuði. Fyrirtæki sem eru ekki að skapa besta umhverfið fyrir starfsfólk sitt eru ansi fljót að tapa þessum 1,5% prósentum sem þau spöruðu í húsaleigu. Þannig að við höfum hvatt fyrirtæki til að auka við sig húsnæði og skapa sem besta aðstöðu fyrir sitt starfsfólk. Starfsfólkið skiptir mestu máli, ekki sparnaður í húsnæði,“ segir Garðar.

Fjallað er um málið í sérblaði um fasteignamarkaðinn sem kom út með Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .