„Við erum að frysta eignir íslenskra fyrirtækja í Bretlandi þar sem við getum. Við munum grípa til frekari aðgerða gegn íslenskum stjórnvöldum eins og þörf krefur til þess að ná fjármunum okkar til baka.“

***

Þessi ummæli lét Gordon Brown forsætisráðherra falla í samtali við breska ríkisútvarpið hinn 9. október 2008. Daginn áður, kl. 10:10 að breskum tíma, hafði tilskipun verið gefin út á hendur Landsbankanum „The Landsbanki Freezing Order 2008“. Fram kemur í tilskipuninni að breska fjármálaráðuneytið telji að aðgerðir sem skaði eða muni hugsanlega skaða breskan efnahag eða hluta hans hafi verið framkvæmdar eða muni verða framkvæmdar af erlendri ríkisstjórn eða íbúa lands utan Bretlands. Íslensk stjórnvöld, sem nefnd voru í tilskipuninni, eru Seðlabanki Íslands, Fjármálaeftirlitið og skilanefnd Landsbankans auk ríkisstjórnar Íslands.

***

Seðlabankastjóri Breta ósammála

Í nýrri skýrslu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins kemur fram að þáverandi bankastjóri Englandsbanka, Mervyn King, hafi talið og telji enn þessar aðgerðir Breta til skammar. Í skýrslunni segir að bankastjórinn hafi lýst þeirri skoðun sinni við ráðherra í bresku ríkisstjórninni að það væri fyrir neðan virðingu Hins sameinaða konungsríkis Stóra-Bretlands að haga sér með slíkum hætti gagnvart hinu smáa Íslandi. Hannes óskaði sérstaks leyfis frá King að hafa þessi ummæli eftir í skýrslu sinni.

***

Skýrsla Hannesar varpar nýju og skýru ljósi á viðhorf og afdrifaríkar ákvarðanir erlendra seðlabanka og ráðamanna í málefnum Íslands þessa örlagaríku daga. Fyrir þá sem enn telja að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar, (eða jafnvel sú, sem sat á undan, með Framsóknarflokkinn innanborðs), hafi borið höfuðábyrgð á bankahruninu 2008, er atburðarásin sett ágætlega fram. Á henni geta menn haft ólíkar skoðanir en staðreyndirnar tala sínu máli. Svokallaðar vinaþjóðir reyndust óvinir Íslands þegar á reyndi.

***

Margir bankar hefðu fallið

Flestir af stærstu bönkum Evrópu hefðu fallið ef þeim hefði verið neitað um lausafjárfyrirgreiðslu, m.a. frá bandaríska seðlabankanum. Svissneski bankinn UBS, Danske Bank í Danmörku og RBS í Skotlandi hefðu nær örugglega fallið rétt eins Glitnir, Landsbankinn og Kaupþing. Raunar var það svo að í janúar 2009 játaði Myners lávarður, þáverandi ráðherra fjármálamarkaða í Bretlandi, að áður en Glitnir féll, fyrstur íslensku bankanna, hefði gervallt breska bankakerfið riðað til falls og engu hefði mátt muna föstudaginn 10. október 2008 að því hefði verið lokað, öll greiðslumiðlun stöðvuð og bankakerfið þjóðnýtt.

***

Það sem meira er, og ekki er heldur sérstaklega minnst á í skýrslu Hannesar, er að allar helstu fjármálastofnanir Bandaríkjanna nema ein voru í verulegri gjaldþrotahættu haustið 2008. Þetta kom fram í skýrslu nefndar Bandaríkjaþings sem rannsakaði fjármálakreppuna (e. Financial Crisis Inquiry Commission). Í skýrslunni er vísað til viðtals nefndarinnar við Ben Bernanke, seðlabankastjóra Bandaríkjanna, í nóvember 2009. Að mati Bernanke var aðeins ein af þrettán helstu fjármálastofnunum Bandaríkjanna ekki í verulegri hættu á að falla. Bernanke sagði einnig í viðtali við nefndina að fjárkreppan sem tók hús á heiminum sumarið 2008 hefði verið verri en kreppan mikla sem hófst 1929.

***

Spilið búið

Aðgerðir breskra stjórnvalda má rekja til innlánsreikninga Landsbankans í Bretlandi, svokallaðra Icesave-reikninga. Þeir höfðu ekki aðeins áhrif á Landsbankann, og dótturfélagið Heritable Bank, heldur einnig Kaupthing Singer & Friedlander (KSF). Breska fjármálaeftirlitið tók báða þessa banka yfir.

***

Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, tjáði sig um yfirtöku breskra yfirvalda í Áramótablaði Viðskiptablaðsins í desember 2015. Þar segir hann:

„Í  kjölfarið beita Bretar svo hryðjuverkalögum á Seðlabankann og Landsbankann. Athugaðu að lögunum var ekki beitt gegn Kaupþingi. Á þessum tíma var mikið talað um fjármagnshreyfingar frá Kaupþingi í Bretlandi til Íslands, en þær fjármagnshreyfingar voru bara ekki til. Það er magnað hvað sú saga var lífseig. Eftir að hryðjuverkalögunum var beitt var Singer & Friedlander tekinn yfir af breskum yfirvöldum og þegar það gerist taka gildi gjaldfellingarákvæði á öllum okkar skuldabréfum. Þá er spilið búið.“

***

Sögusagnir og sakleysi

Í skýrslu Hannesar eru dagarnir í kringum yfirtöku breska fjármálaeftirlitsins á KSF raktir. Af þeim má sjá að þrátt fyrir að bankastjórinn Ármann Þorvaldsson og aðrir starfsmenn bankans legðu sig alla fram um að mæta kröfum eftirlitsins og upplýsa um stöðu mála, þá urðu kröfurnar bankanum einfaldlega ofviða. Þessar kröfur voru í engum takti við þann slaka sem margir breskir bankar fengu á sama tíma, lán og hlutafjárframlag frá breska ríkinu. Til að mynda hinn 8. október tilkynnti Gordon Brown um 500 milljarða punda björgunarpakka til handa bönkunum, meðal annars til að verja innistæðueigendur. Sá björgunarpakki náði til allra breskra banka nema tveggja, KSF og Heritable-bankans í eigu Landsbankans. Rétt er að undirstrika að þeir voru breskir bankar, þó svo að eigendurnir væru mikið til íslenskir, og mikið vafamál að þær ákvarðanir hafi staðist lög eða alþjóðlegar skuldbindingar. Hinar miklu sögusagnir um fjármagnshreyfingar frá Bretlandi til Íslands, sem Sigurður minnist á hér að ofan, reyndust úr lausu lofti gripnar. Breska fjármálaeftirlitið rannsakaði allar slíkar ásakanir vandlega, en niðurstaðan var sú að ekki væri ástæða til að ákæra starfsmenn bankanna tveggja, hvorki hjá KSF né hjá Heritable-bankanum.

***

Nánast fullar endurheimtur

Á daginn kom við skilameðferð að Heritable-bankinn og KSF voru alls ekki gjaldþrota heldur gjaldfærir. Endurheimtur sýna svo ekki verður um villst hvers konar spellvirki bresk stjórnvöld frömdu gagnvart bönkunum tveimur og þar með kröfuhöfum íslensku bankanna með aðgerðum sínum. Gríðarlegur kostnaður féll á þrotabú bankanna vegna lögfræðinga og endurskoðenda auk þess sem verulegir fjármunir voru lengi bundnir inn á reikningum í Englandsbanka án þess að bera vexti.

***

Endurheimtur ótryggðra kröfuhafa Heritable-bankans reyndust 98% og 87% hjá Kaupþing Singer & Friedlander. Í tilviki KSF nam lögfræði- og endurskoðendakostnaðurinn tæpum 4%. Ekki leikur nokkur vafi á að hefðu bankarnir haldið áfram rekstri ótruflað, hefðu þeir staðið fyllilega undir öllum skuldbindingum sínum.

Hvers vegna í ósköpunum?

Í skýrslu sinni bendir Hannes Hólmsteinn á margar hugsanlegar skýringar á framkomu breskra stjórnvalda, lokun Heritable og KSF og beitingu hryðjuverkalaganna. Ein er sú að Gordon Brown og Alistair Darling, sem báðir eru skoskir, hafi viljað sýna Skotum fram á áhættuna við að slíta sambandinu við England, en Skoski þjóðarflokkurinn hafði mjög vísað til „íslenska efnahagsundursins“ um það að Skotum væri í öllu óhætt að vera sjálfstætt ríki.

***

Önnur er sú að þeir hafi viljað draga athyglina frá gríðarlegum útgjöldum til að bjarga breskum bönkunum. Hin þriðja að þeir hafi viljað sýna kjósendum að þeir gættu hagsmuna Breta af fyllstu hörku og sú fjórða að þeir hafi viljað bæta vígstöðu sína í væntanlegri Icesave-deilu. Allt eru þetta líklegar ástæður. Við má bæta að mögulega hafa þeir og fleiri viljað láta íslensku bankana falla öðrum til viðvörunar. Það áfall væri ólíklegt til þess að smita út frá sér og þar fyrir utan voru ýmsir sem gjarnan vildu lækka rostann í hinum óhefluðu víkingum, sem höfðu gert sig svo breiða árin áður.

***

Hvað sem ætluðum ástæðum líður voru aðgerðir Gordons Brown, Alistairs Darling og ríkisstjórnar breska Verkamannaflokksins tilhæfulausar og fráleitar og sýndu svo ekki varð um villst hvaða mann þeir höfðu að geyma.

***

Skýrsla Hannesar leiðir það vel í ljós, líkt og margt annað, sem ekki hefur farið hátt eða Íslendingum hefur hætt til að leiða hjá sér í sjálfsásökunum og þrotlausri leit að innanmeinum undanfarin ár. Um það er hún bæði fróðleg og nytsamleg, einkar nauðsynlegt gagn um ófarir Íslands í hinni alþjóðlegu fjármálakreppu, sem enn sér ekki fyrir endann á víða annars staðar.

***

Óðinn á vafalaust eftir að gera sér frekari mat úr skýrslu Hannesar, en sýtir það helst að hún mætti vera lengri. Sem má sjálfsagt rekja til þess að hún var stytt úr um 700 síðum í 180, vafalaust til þess að gera hana aðgengilegri. Óðinn stingur hér með upp á því við Hannes að hann nýti upphaflega gerð hennar til þess að gera úr lengri bók. Hún gæti orðið ómetanleg heimild um aðdraganda óskapanna, sem ætti ekki aðeins erindi við Íslendinga.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .