Flugvélaleigur hafa í hyggju að slíta hundruð leigusamningum með farþegaþotur sem leigðar eru út til rússneskra flugfélaga. Er þetta meðal þess sem viðskiptaþvinganir vestrænna ríkja gagnvart Rússlandi, vegna innrásar hers landsins inn í Úkraínu, fela í sér. Reuters greinir frá.

AerCap Holdings, stærsta flugvélaleiga heims, hefur greint frá því að félagið muni slíta á viðskiptasambönd við rússnesk flugfélög. Þá hefur önnur stór flugvélaleiga, BOC Aviation, stigið fram og sagst reikna með að búið verði að slíta flest öllum leigusamningum við rússnesk flugfélög að einum mánuði liðnum.

Alls eru rússnesk flugfélög með 980 farþegaþotur á sínum snærum. Mikill meirihluti þeirra, eða 777, eru leigðar af flugvélaleigum. Þar af eru 515 þotur, sem samtals eru metnar á um 10 milljarða dala, leigðar af erlendum flugvélaleigum.

Auk þess hefur fjöldi þjóða bannað rússneskar þotur innan sinnar lofthelgi, svo ljóst er að rússneskum flugfélögum er mikill vandi á höndum.