Hagnaður samlokugerðarinnar Sóma jókst um rétt tæplega 10% milli ára í fyrra, úr 198,6 milljónum í 218,4 milljónir króna. Á sama tíma jukust tekjurnar um 10,8%, úr 2.871,2 milljónir í 3.182,6 milljónir en rekstrargjöldin um 11,4%, úr 2.599,1 milljón í 2.894,5 milljónir króna. Kartöfluverksmiðja Þykkvabæjar ehf. er dótturfélg og hluti af samstæðu Sóma.

Hrein fjármagnsgjöld tæplega helminguðust á milli ára, úr tæpum 18 milljónum í 9,3 milljónir og jókst hagnaðurinn fyrir tekjuskatt um 9,7%, úr 254,1 milljón í 278,9 milljónir. Að meðaltali störfuðu 124 hjá samstæðunni, sem er aukning um 7 starfsmenn frá árinu 2017 þegar heilsársstörfin voru 117.

Eigið fé félagsins jókst um 22,2% milli ára, í 542 milljónir meðan skuldirnar lækkuðu um 4,1 milljón, í tæplega 676 milljónir króna. Þar með hækkuðu eignir félagsins um 8,4%, úr rúmlega 1,1 milljarði í rúmlega 1,2 milljarða króna. Á sama tíma hækkaði eiginfjárhlutfallið úr 39,5% í 44,5%.

Alfreð Frosti Hjaltalín er framkvæmdastjóri og eigandi rúmlega 48% hlutar í félaginu, en Arnþór Pálsson á annað eins. Loks á Sigurður Ólafsson 3,4% hlut í félaginu. Laun stjórnar og framkvæmdastjóra námu 48 milljónum króna sem er um milljón króna aukning frá árinu áður. Loks greiddi félagið 120 milljónir króna í arð til hluthafa á árinu.