Sóttkví verður afnumin og fjöldatakmarkanir rýmkaðar í 200 manns nú á miðnætti, og sóttvarnarreglur í skólastarfi verða afnumdar. Heimill opnunartími vínveitingastaða verður lengdur um eina klukkustund, og mega þeir því taka við gestum til miðnættis og hýsa þá til 1. Takmarkanir á landamærum verða óbreyttar.

Þetta kom fram í máli Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra nú fyrir skemmstu í kjölfar ríkisstjórnarfundar þar sem minnisblað Þórólfs Guðnasonar sóttvarnarlæknis var til umfjöllunar. Vísir greindi frá .

Afléttingarnar eru að mestu í samræmi við annað skref afléttingaráætlunar, en við síðustu afléttingar í lok janúar var gert ráð fyrir næsta skrefi 24. febrúar.

Samkvæmt vef stjórnarráðsins munu hátt í 10 þúsund manns losna úr sóttkví við breytinguna, sem taka mun gildi um leið og reglugerðin birtist í stjórnartíðindum í dag. Þeir sem eru í sóttkví munu ekki þurfa að fara í sýnatöku til að losna.

Þeim sem hafa verið útsettir fyrir smiti verður ekki lengur skylt að sæta smitgát þótt hvatt sé til hennar og þar með fellur jafnframt brott skylda til sýnatöku í lok smitgátar.

Fjöldatakmarkanir í verslunum munu einnig falla brott, sem og allar takmkarkanir á sund- og líkamsræktarstöðvum.