Hagfræðideild Landsbankans spáir 0,3% hækkun vísitölu neysluverðs milli mánaða, í hagsjá sem kom út í dag. Ef spáin gengur eftir mun verðbólgan hækka úr 4,8% í 4,9%. Hagstofan birtir desembermælingu vísitölu neysluverðs þriðjudaginn 21. desember.

Í hagsjánni kemur fram að helsti áhrifaþáttur verðbólguþróunarinnar í desember verði reiknuð húsaleiga. Bankinn spáir 0,79% hækkun á húsaleigu milli mánaða sem skilar sér í 0,14% verðlagshækkun. Bensín, olía, matur og drykkir muni þá hafa 0,05% lækkunaráhrif á vísitöluna milli mánaða.

Verðbólga án húsnæðis hefur dregist saman nokkuð hratt að undanförnu og mældist hún 3,4% í nóvember. Hæst var hún í janúar, þegar hún fór upp í 4,7%. Landsbankinn spáir því að verðbólga án húsnæðis haldi áfram að lækka og verði 3,1% í desember.