Fjármögnunarumhverfi íslenskra sprotafyrirtækja er líklega sterkara í dag en nokkru sinni fyrr, en fimm íslenskum vísisjóðum upp á samtals rúmlega 40 milljarða króna hefur verið komið á laggirnar í ár.

Heildarfjármögnun sérhæfðra íslenskra vísisjóða nemur því um 70 milljörðum króna. Samkvæmt upplýsingum sem sjóðirnir veittu Viðskiptablaðinu hefur um 30 milljörðum króna af þeirri fjárhæð verið fjárfest og er núverandi fjárfestingargeta þeirra því um 40 milljarðar.

Í fyrradag lauk fyrsta umsóknartímabili um fjármuni frá sprota-og nýsköpunarsjóðnum Kríu, sem stofnaður var af íslenskum stjórnvöldum til að styðja við fjármögnunarumhverfi nýsköpunar. Sjóðnum er einvörðungu ætlað að fjárfesta í innlendum vísisjóðum, allt að 2,24 milljörðum á þessu tímabili og 8 milljörðum til næstu fimm ára.

Tímasetning fyrsta umsóknartímabils Kríu kann að skjóta skökku við í ljósi þess fjölda sjóða sem þegar hafa verið fullfjármagnaðir á árinu án aðkomu ríkisins. Óvíst er hvernig fyrstu fjármögnun Kríu verður úthlutað, en miðað við reglur sjóðsins virðast fáir aðrir fjárfestingakostir koma til greina en þeir fimm vísisjóðir sem hafa nú þegar safnað 40 milljörðum króna. Þannig þarf stærð vísisjóðs að vera a.m.k. fjórir milljarðar króna að undanskildu stofnfé Kríu til að hann komi til greina sem fjárfesting. Að sjóðnum þarf jafnframt að koma aðili sem hefur umtalsverða reynslu, þekkingu og árangur í alþjóðlegu umhverfi fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.

Líklegasta útkoman er því sú að þessir fimm sjóðir komi til með að stækka enn frekar með fjármagni frá Kríu, sem nemur einungis rúmum 5% af þeim hlutafjárloforðum sem sjóðirnir hafa þegar aflað. Sigurður Arnljótsson, annar stofnenda Brunns Ventures og stjórnarmaður í Framvís, samtökum vísifjárfesta, er meðal þeirra sem setja spurningarmerki við þessa ráðstöfun stjórnvalda. „Þetta eru miklar fjárhæðir og hefði hugsanlega verið hjálplegt fyrir 1-2 árum. En núna eru of miklir peningar í kerfinu og því erfitt að koma auga á markaðsbrest sem kallar á ríkisaðstoð," segir Sigurður. Þetta geti leitt til þess að toppurinn í fjárfestingum verði hærri og öldudalurinn dýpri. Kría stuðli því ekki að heilbrigðara umhverfi líkt og lagt er upp með í greinargerð laga um Kríu.

„Eðlilegra væri að verja frekari fjármunum í eitthvað annað eins og endurgreiðslu á rannsóknar- og þróunarkostnaði minni fyrirtækja, sem eflir samkeppnishæfni íslenskra nýsköpunarfyrirtækja á alþjóðamarkaði. Einnig er brýnt að gera það meira aðlaðandi fyrir sérfræðinga að flytja til landsins því það er orðið erfitt að fylla í störf hjá tæknifyrirtækjum."

Heildarfjármögnun íslenskra vísisjóða
Heildarfjármögnun íslenskra vísisjóða

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .