Sigurður Ingi Jóhannsson var tekinn tali í Viðskiptablaðinu í vikunni.

Forveri þinn í embætti formanns Framsóknarflokksins virðist hafa verið nokkuð ólíkur þér. Hvernig hefur Framsóknarflokkurinn verið undanfarið ár – hvernig er stemningin?

„Hún er eiginlega ólýsanlega góð. Ég gekk í flokkinn 2001 og var ekki mjög virkur í þessu landsmálavafstri fyrr en 2009. Þá hafði ég verið 15 ár í sveitarstjórn og ætlaði að hætta en fór eigi að síður á flokksþingið í janúar 2009. Hálfum mánuði síðar var ég kominn í framboð. Ég hafði rekið fyrirtæki um nokkurra ára skeið og verið í forsvari fyrir sveitarfélög og opinberan rekstur. Þá hugsaði ég að kannski gæti ég lagt eitthvað af mörkum. Þess vegna fór ég í framboð.

Við unnum ótrúlegan kosningasigur 2013 eftir mikinn mótbyr í kosningum 2009. Þá, og 2013, var hreinlega barið á okkur á opinberum vettvangi. Í kosningunum í fyrra, 2016, var eins og flokkurinn væri lamaður. Í haust var bara eitthvað allt annað andrúmsloft í samfélaginu og ekki síður inni í flokknum. Þar gekk hver maður undir annars hönd, og allir höfðu gaman af og fólk var glatt. Ég hef heyrt svona sögur úr Framsóknarflokknum frá því í gamla daga. Ég veit núna hvað fólk var að tala um.“

Þessi tilfinning virðist vera víðar en bara innan Framsóknar. Flestir, 71% aðspurðra í Þjóðarpúlsi Gallup, sögðust vilja Framsóknarflokkinn í ríkisstjórnarsamstarf.

„Ég spurði gamla menn í Framsóknarflokknum hvenær staðan hefði verið svona. Þeir byrjuðu á að vera spekingslegir í framan og sögðu svo: Aldrei. Allavega ekki í marga áratugi. Þetta fann ég, bæði þegar við töluðum við fólk en ekki síður inn á við.“

Innviðir eru ofarlega á blaði þegar kemur að vali á orði ársins 2017. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er mikið fjallað um innviði og innviðauppbyggingu, ekki síst í samgöngu-, heilbrigðis- og menntamálum. Sigurður Ingi er afdráttarlaus í þeirri afstöðu að ekki eigi að taka upp vegatolla til að fjármagna uppbyggingu samgöngumannvirkja.

„Það sem við þurfum að gera er að velta fyrir okkur langtímamarkmiðinu. Hvað gerist á næstu tíu til fimmtán árum og hvað þurfum við að gera á næstu fimm árum til að styðja við það? Við höfum verið með þá stefnu að vera með jarðgöng í gangi á hverjum tíma. Ég held að það sé í raun og veru nauðsynleg stefna. Við erum kannski búin með flest ódýrari verkefnin en engu að síður þurfum við að tryggja að allir landsmenn búi við sömu skilyrði, hafi jöfn tækifæri til atvinnuþróunar og að atvinnulíf verði ekki einhæft á hverjum stað.“