Leikarinn og grínistinn Steinþór Hróar Steinþórsson eða Steindi Jr. hefur stofnað félagið Gamers ehf. ásamt félögum sínum sem standa á bak við sjónvarpsþættina Rauðvín og klakar. Þetta kemur fram í Lögbirtingablaðinu.

Steindi er framkvæmdastjóri félagsins og Ólafur Þór Jóelsson, framkvæmdastjóri kvikmyndahúsa Senu, er stjórnarformaður. Ólafur hefur oft verið kenndur við sjónvarpsþættina Gametíví sem hann stýrði ásamt Sverri Bergmann. Aðrir stofnendur og stjórnarmenn félagsins eru Pétur Thor Gunnarsson og Dagbjört Vestmann Birgisdóttir.

Skráður tilgangur félagsins er framleiðsla á skemmtiefni fyrir net og sjónvarp sem og viðburðastjórnun og rekstur tölvuleikjamóta.

Í þáttunum er sent út streymi í beinni útsendingu af þeim að spila tölvuleiki. Nafn þáttanna kemur frá því sem Steindi kallar sinn einkennisdrykk , rauðvín með klökum.