Bílaframleiðandinn Stellantis hefur hætt allri framleiðslu í Rússlandi vegna viðskiptaþvingana á hendur Rússum og skorts á aukahlutum. Þetta kemur fram í grein hjá The Times.

Stellantis varð til árið 2021 í gegnum 38 milljarða dala samruna Fiat Chrysler og PSA Group. Stellantis framleiðir bifreiðavörumerki á borð við Peugeot, Citreon, Vauxhall, Fiat, Jeep, Opel, Maserati og Chrysler, en höfuðstöðvar félagsins eru í Amsterdam í Hollandi.

Félagið ætlar að loka sendibílaverksmiðju sinni í Kaluga borg, sem er staðsett 190 kílómetrum frá Moskvu. Verksmiðjan er talin vera síðasta alþjóðlega starfandi bílaverksmiðjan í Rússlandi, fyrir utan verksmiðju á vegum Renault sem framleiðir Lada bifreiðar.

Áður en Stellantis tók þá ákvörðun að loka verksmiðjunni í Kaluga, hafði félagið stöðvað sölu bifreiða til Rússlands. Sú ákvörðun er talin kosta Stellantis 30 milljónir evra á ári. Aðrir stórir alþjóðlegir bílaframleiðendur hafa einnig hætt framleiðslu í Rússlandi, en þar má nefna Ford, Volkswagen og BMW.