Sting, sem heitir réttu nafni Gordon Summer, hefur selt útgáfuréttinn að tónlistarsafni sínu til Universal Music Group. Universal segir samninginn vera með þeim stærri í tónlistarsögunni, að því er kemur fram í grein Bloomberg .

Sting, sem gerði garðinn frægan bæði með hljómsveitinni The Police og sem sólólistamaður hefur selt meira en 100 milljón plötur á ferlinum. Meðal laga sem Universal mun eiga útgáfurétt að eru „Roxanne" og „Every Breath You Take".

Margir af stærstu tónlistarmönnum samtímans hafa selt útgáfuréttinn að tónlistarsafni sínu á undanförnum árum. Universal keypti til að mynda útgáfurétt að tónlistarsafni Bob Dylan árið 2020 á 300 milljónir dala. Jafnframt seldi Neil Young 50% af eignarhlut af tónlistarsafni sínu fyrir um 150 milljónir dala. Bruce Springsteen seldi nýlega útgáfurétt að tónlistarsafni sínu til Sony, en fjölmiðlar vestanhafs sögðu samninginn vera 500 milljón dala virði. Auk þess hafa yngri tónlistarmenn eins og John Legend og David Guetta farið sömu leið.