Hlutfall Íslendinga sem eru hlynntir sölu áfengis í matvöruverslunum hefur ekki verið hærra frá því að Maskína byrjaði að spyrja um viðhorf almennings í þessu máli árið 2016. Um 47,6% Íslendinga styðja nú sölu létts áfengis, þ.e. bjórs og léttvíns, í matvöruverslunum samkvæmt nýrri könnun Maskínu en á síðasta ári mældist hlutfallið 43,4%. Um 36% sögðust andvígir sölu létts áfengis í verslunum. Niðurstöður könnunarinnar má finna hér .
Helmingi færri svarendur könnunarinnar eru hlynntir sölu sterks áfengis, þ.e. með yfir 22% áfengisinnihald, í matvöruverslunum. Hlutfall þeirra sem eru hlynntir sölu sterks áfengis mælist nú 22,4% sem hefur þó ekki verið hærra frá því að Maskína hóf mælingar.
Afstaða Íslendinga er hins vegar mjög breytileg eftir aldri en yfir helmingur af fólki undir fertugu er hlynntur sölu á léttvíni og bjór í matvöruverslunum. Einungis 27% af fólki yfir sextugu er hlynnt sölu létts áfengis í verslunum og hlutfallið mælist 10,6% þegar kemur að sterku áfengi.
Maskína bendir á að þegar niðurstöðurnar eru sundurliðaðar eftir stjórnmálaflokkum megi sjá að Sjálfstæðisflokkurinn og Viðreisn skera sig frá öðrum og eru mun hlynntari sölu á léttvíni og bjór í matvöruverslunum en kjósendur annarra flokka.
Um 77% kjósenda Viðreisnar segjast hlynnt sölunni og ríflega 62% kjósenda Sjálfstæðisflokksins eru á sama máli. Hins vegar eru kjósendur Vinstri grænna og Framsóknar á öndverðum meiði en 44% kjósenda beggja flokka sögðust vera andvígir sölu á léttvíni og bjór í matvöruverslunum.