Samstarf Icelandic Water Holdings og stórhljómsveitarinnar Rolling Stones hefur verið endurnýjað samkvæmt fréttatilkynningu frá félaginu. Þetta er fjórða árið í röð sem aðilarnir starfa saman og gengur samstarfið í ár út á það að lágmarka kolefnisspor af komandi tónleikaröð hljómsveitarinnar í Bandaríkjunum ,,No Filter'' en þeir fyrstu fara fram í ST.Louis þann 26. September.

Í tilkynningu segir að Icelandic Glacial muni sjá tónleikaferðalaginu fyrir íslensku hágæðavatni í glerflöskum ásamt flokkunartunnum. Fyrirtækið sé fyrsti vatnsframleiðandi í heiminum sem fengið hafi vottun um kolefnishlutleysi vöru og framleiðslu.

„Við erum gríðarlega stolt og ánægð með þetta farsæla samstarf og verðuga verkefni með hljómsveitinni. Frá upphafi hefur fyrirtækið okkar lagt metnað í umhverfismál og haft það að leiðarljósi að starfsemi okkar sé kolefnishlutlaus, Umhverfismálin eru partur af því hver við erum,“ segir Jón Ólafsson, stofnandi og stjórnarformaður Icelandic Glacial, í tilkynningunni.

„Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs með Icelandic Glacial í komandi tónleikaröð ,,No Filter'' í Bandaríkjunum og berum mikla virðingu fyrir starfsemi fyrirtækisins í þágu umhverfismála,“ er haft eftir The Rolling Stones.