Elding hvalaskoðun Reykjavíkur ehf. hagnaðist um 53 milljónir króna árið 2019, samanborið við rúmar 350 þúsund krónur árið áður. Velta félagsins jókst um 5% milli ára og nam 820 milljónum en rekstrargjöld lækkuðu um tæp 3% í 714 milljónir. Rekstrarhagnaður var ríflega 106 milljónir króna jókst um ríflega 130% milli ára.

Launakostnaður lækkaði um 5,3%, úr rúmum 398 milljónum króna í rúmar 377 milljónir, en fjöldi ársverka var 58 á árinu.

Eignir félagsins námu rúmum 723 milljónum króna í árslok 2019, samanborið við 707 milljónir ári áður. Eigið fé jókst um 19% og nam 332 milljónum í árslok en skuldir lækkuðu um 15,6% og námu um 375 milljónum króna. Eiginfjárhlutfall félagsins jókst því úr 38,6% í 47%.

Í yfirlýsingu með ársreikningnum frá því í desember síðast liðnum kemur fram að búist sé við því að tekjusamdráttur á árinu 2020 verði 80% milli ára, enda séu viðskiptavinir félagsins að langmestu leyti erlendir ferðamenn.

Þá hafi félagið nýtt sér úrræði stjórnvalda til að lágmarka fjárhagslegan skaða, þar með talið hlutabótaleið og uppsagnarstyrki en félagið hugðist sækja um bæði tekjufalls- og viðspyrnustyrk.

Rannveig Grétarsdóttir er framkvæmdastjóri og einn eigenda Eldingar.