Fyrirhugað lagafrumvarp umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um bann við olíuleit og -vinnslu er í takt við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að sögn ráðherra. Engin virk olíuleit hefur átt sér stað í lögsögu Íslands síðastliðin fjögur ár frá því að leyfi Eykon Energy til olíuleitar á Drekasvæðinu var afturkallað af Orkustofnun í mars 2018.

Heiðar Guðjónsson, fyrrverandi stjórnarformaður Eykon og núverandi forstjóri Sýnar, undrast fyrirhugaða lagasetningu og telur hana ekki þjóna markmiði stjórnvalda. „Þetta er ótrúlega sérkennilegt frumvarp vegna þess að við sem nyrsta höfuðborg heims, eyja á hjara veraldar, værum ekki neitt án olíu í dag. Það væru engir flutningar til og frá landinu, og flutningar eru undirstaða viðskipta, sem eru undirstaða velmegunar, þannig að ég skil ekki hvernig það gagnast Íslendingum að nýta ekki olíumöguleika ef þeir eru til staðar," segir Heiðar.

Hann bendir jafnframt á að ekkert svæði heimsins hafi jafn góða og ábyrga sögu auðlindanýtingar og norðurslóðir. Að hans sögn sé fráleitt að láta slíkt svæði ósnert og hvetja jafnóðum til frekari vinnslu á svæðum með verra umhverfisfótspor, á borð við Afríku, Mið-Asíu og Mið-Austurlönd.

„Það er nánast búið að fullvinna alla ódýrustu olíuna alls staðar. Hvað varðar nýjar olíulindir snýst hagkvæmnin algerlega um stærð þeirra. Johan Castberg og Johan Sverdrup í Norður-Noregi eru með kostnaðarverð upp á 25 Bandaríkjadali á tunnu, þær eru úti á sjó við svipaðar aðstæður og á Íslandi en miklu hærri ölduhæð. Það var byrjað að vinna upp úr þeim lindum á síðustu 3-4 árum," segir Heiðar.

Hann segir aðgerðir Íslands jafnframt ekki hafa neitt vægi í alþjóðlegu samhengi. „Ef við ætlum að slökkva á allri olíu- og gasnotkun á Íslandi gagnast það engum hér og ekki heldur umheiminum því við vigtum svo lítið. Eina leiðin til þess að eitthvað svona væri framkvæmanlegt væri ef allar þjóðir heimsins tækju höndum saman. En ef við skoðum vegferð Kína og sérstaklega Indlands eru þar byggð ný kolaorkuver í hverri einustu viku," segir Heiðar, sem telur að um sýndardyggð sé að ræða með frumvarpinu.

„Við erum ekki að minnka notkun á olíu - við erum einungis að banna vinnslu á henni hér. Enginn sem hefur almennt trú á verðmætasköpun myndi láta sér detta í hug að flytja inn olíu frá stöðum þar sem eru verri umhverfisstaðlar, minni vernd og verra stjórnarfar frekar en að vinna hana hér fyrir utan landsteinana á ábyrgan hátt með öflugustu samstarfsaðilum heims," segir Heiðar. Hann bendir einnig á að í núverandi ástandi hefði olíu- og gasframleiðsla við Ísland getað reynst Evrópu dýrmæt.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .