Hörður Felix Harðarson, verjandi Júlíusar Vífils Ingvarssonar, telur mögulegt að í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli hans verði unnt að sækja menn til saka fyrir afleidd brot þótt frumbrotið hafi fyrnst fyrir árum eða áratugum. Mögulega hafi fjölgað í hópi afbrota sem aldrei fyrnast en sá hópur hefur hingað til aðeins talið manndráp.

Júlíusi var gefið að sök peningaþvætti, svokallað sjálfsþvætti, með því að hafa haft í vörslum sínum á erlendum bankareikningum andvirði 131-146 milljónir króna. Þar voru á ferð umboðslaun sem höfðu orðið til í tengslum við rekstur bifreiðaumboðsins Ingvars Helgasonar árin 1982-93.

Niðurstaða meirihluta Hæstaréttar var sú að líkur væru á því að fjármunirnir hefðu verið afrakstur refsiverðrar háttsemi í upphafi. Með breytingunni 2010 hefði allur vafi verið tekinn af um að sjálfsþvætti væri refsivert. Þar sem sjálfsþvætti væri ástandsbrot, það er brotið héldi áfram meðan fjármunirnir væru í vörslu brotamanns, fyrndist sök ekki fyrr en ástandinu lyki.

„Þessi niðurstaða gerir það í raun að verkum að áhugasamir saksóknarar geta farið eins langt aftur í tíma og þeir vilja og skoðað mál þar sem frumbrotið er fyrnt. Í því sambandi skiptir engu þótt sjálfsþvætti hafi ekki verið refsivert á þeim tíma. Það sem meira er að þá virðist, samkvæmt þessum dómi, ekki þurfa að sanna sök í frumbrotinu,“ segir Hörður Felix.

Bendir hann á í því samhengi að það hafi dugað ákæruvaldinu að sýna fram á að sennilegt væri að um skattalagabrot væri að ræða og við það hefði sönnunarbyrðin fallið á skjólstæðing sinn. Hann hafi haft undir höndum gögn um fjármunina aftur til ársins 2004 en ekki eldri skjöl en það. Honum hafi því verið nær ómögulegt að færa sönnur á að skattar hefðu verið greiddir af fjármunum á erlendri grund.

Jafnræðis gætt og fleiri saksóttir?

Ímyndum okkur nú uppskáldað dæmi af þjófi sem hefur haft tíu milljónir króna upp úr krafsinu af sinni refsiverðu iðju. Peningunum stingur hann undir rúmdýnu og brúkar þá aldrei. Í dæmaskyni skulum við gera okkur í hugarlund að eftir afbrotið verði hann fyrirmyndarborgari, vinni heiðarlega vinnu, borgi sína skatta og lifi venjubundnu rólyndislífi. Á meðan þá fyrnist frumbrotið, ýmist sökum þess að hann komst undan klóm réttvísinnar eða sökum gífurlegs hægagangs við rannsókn málsins. Hið afleidda brot heldur aftur á móti áfram að malla.

„Samkvæmt þessum dómi þá fyrnast þessi brot, það er varsla ávinnings af refsiverðri háttsemi, aldrei svo lengi sem ólögmæti ávinningurinn er til staðar. Fyrning hefst fyrst þegar hinn brotlegi hefur losað sig við ávinninginn eða eytt honum. Ef hinn brotlegi á enn eignir umfram skuldir getur verið erfitt að sanna að ávinningurinn sé ekki enn til staðar, í einhverju formi,“ segir Hörður Felix. Bendir hann á að fyrir Landsrétti hafi dómarar málsins spurt ákæruvaldið hvað myndi gerast ef brotamaður myndi andast og erfingjar hans fengu hinn ólögmæta ávinning í arð. Vörslur ávinningsins myndu í slíku tilviki færast til erfingja og að lögum er heimilt að refsa fyrir peningaþvætti sem framið er af gáleysi. Þeirri spurningu er ósvarað hvort reglur um peningaþvætti geti að þessu leyti náð út yfir gröf og dauða.

Í stjórnarskrá, mannréttindasáttmála Evrópu og hegningarlögum er lagt bann við refsingum nema lög hafi áskilið slíkt akkúrat á þeim tímapunkti sem það var framið. Að mati dómaranna fimm, sem mynduðu Hæstarétt í málinu, girtu þau ákvæði ekki fyrir að Júlíusi yrði gerð refsing þrátt fyrir að ætlaður ávinningur hafi myndast áratugum áður en sjálfsþvætti var gert refsivert.

„Stutta svarið við því hvort það standi til að leita til MDE er já. Það er mun líklegra en ekki að málið verði sent út. Að okkar mati er hér á ferð stórt, fordæmisgefandi mál. Í því sambandi er vert að hafa í huga að fjöldi þeirra mála sem hafa fallið á tímafrestum í skattkerfinu síðastliðna áratugi er án nokkurs vafa umtalsverður. Af þessum dómi virðist ljóst að það sé hægt að taka þau mál upp, svo framarlega sem gögn séu enn til staðar og skattaðilinn hafi ekki orðið gjaldþrota, og ákæra fyrir peningaþvætti. Þar gildir þá einu þótt málin séu orðin 20-30 ára gömul eða enn eldri. Það verður fróðlegt að sjá hvort ráðist verði í þessa vegferð en þegar horft er til jafnræðisreglna þá getur vart verið að umbjóðandi minn verði sá eini sem sæti slíkri meðferð. Ég tel mjög mikilvægt að fá úr þessu skorið,“ segir Hörður Felix.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .