Viðskiptablaðið fjallaði í liðinni viku um að líf væri að færast á ráðstefnumarkaðinn á ný eftir tvö erfið ár í kórónuveirufaraldrinum. Svanhildur Konráðsdóttir, framkvæmdastjóri Hörpu, segir að ákveðin stífla hafi brostið eftir að tilkynnt var um afléttingar og frísk eftirspurn sé á öllum sviðum viðburðahússins.

„Það sem blasir við hjá okkur er að bókunarstaðan fram undan er orðin mjög þétt,“ segir Svanhildur. Hún nefnir sérstaklega að mikill áhugi sé nú að halda árshátíðir og aðra viðburði sem hefur ekki verið mögulegt að undanförnu.

Þá sé einnig verið að setja viðburði sem þurfti að fresta aftur á dagskrá. Í upphafi faraldursins var lögð rík áhersla á að halda viðburðum í Hörpu og fresta þeim fremur en að afbóka þá alfarið. Í sumum tilfellum hefur þurft að slá viðburðum á frest fimm eða sex sinnum, að sögn Svanhildar. Hún telur að mikill varnarsigur hafi unnist og í samanburði við stór viðburðahús í nágrannalöndum hafi tekist vel að halda virkni í húsinu.

„Við lögðum ofurkapp á að sæta alltaf færis að halda viðburði um leið og kostur gafst. Því var október 2021 stærsti októbermánuður í húsinu frá opnun, einfaldlega þar sem margir viðburðir sem hafði verið frestað þjöppuðust saman.“

Sjá einnig: Líf glæðist á ráðstefnumarkaðnum

Þó bókunarstaðan hafi batnað hratt tekur þó lengri tíma að ná inn stórum alþjóðlegum viðburðum á ný. Svanhildur segir hins vegar ánægjulegt að stórir aðilar hafi strax sýnt mikinn áhuga á að halda viðburði í Hörpu á næstu 3-4 árum. „Harpa er með aðstöðu á heimsmælikvarða og er sífellt að gera sig betur gildandi sem alþjóðlegt viðburðahús,“ segir Svanhildur.

Bóka með minni fyrirvara en áður

Í október síðastliðnum opnaði The Reykjavik EDITION hótelið við hliðina á Hörpu. Hótelið leigir út fjögur fundarrými, þar af er veislusalurinn Ballroom stærstur en hann tekur allt að 350 manns í standandi viðburði. Auk þess stendur til boða að leigja út barinn Tölt fyrir einkaveislur. Það á einnig við um þakbarinn og rými á næturklúbbnum sem opna á næstunni.

Íris Tara Sturludóttir, sviðsstjóri viðburða hjá The Reykjavik EDITION, segir að fyrirspurnum um ráðstefnur og annað viðburðahald hafi fjölgað hratt á síðustu vikum. Í gegnum faraldurinn hafi innlendi markaðurinn alltaf tekið mjög hratt við sér í kjölfar tilslakana en í þetta sinn voru erlendir aðilar einnig fljótir að bregðast við.

„Við byrjuðum mjög fljótlega að fá fjölda fyrirspurna erlendis frá fyrir hópa af öllum stærðum sem eru að bóka með minni fyrirvara en áður,“ segir Íris. Bókunarstaðan sé farin að líta vel út fyrir sumarið en einnig eru að byrjaðar að berast fyrirspurnir fyrir haustið og næsta ár.

Nánar er fjallað um ráðstefnumarkaðinn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .