Jakob Einar Jakobsson, framkvæmdastjóri Jómfrúarinnar, segir ágætan gang í heimsendingarþjónustunni sem veitingastaðurinn
hefur boðið viðskiptavinum upp á vegna þess ástands sem skapast hefur í þjóðfélaginu við útbreiðslu Covid-19 veirusýkingarinnar.

„Við höfum svo sem alltaf verið með veisluþjónustu til fyrirtækja en ákváðum nú að sinna einstaklingum líka í þessu árferði. Við auglýstum það aðeins upp og þetta er komið upp í einhverjar fimmtán sendingar á dag, en við erum enn á frumstigi með þetta. Síðan hefur fólk líka verið að panta til að sækja,“ segir Jakob Einar.

„Maður verður að vera með alla anga úti þótt sem betur fer hafi veitingastaðurinn sjálfur verið að malla nokkuð vel, og eiginlega
betur en ég þorði að vona svona miðað við svörtustu spár. En síðasta vika var samt sem áður bara um 60% af því sem venjuleg vika á að vera á þessum tíma árs, því þó að ferðamenn hafi aldrei verið uppistaðan hjá okkur, hafa þeir verið rjóminn sem hefur bætt upp dauðu tímana. Þeir hafa verið sterkir hjá okkur á kvöldin, því sögulega séð höfum við frekar verið hádegisverðarstaður.“

Jakob Einar segir Jómfrúna búa að því að vera með sterkan hóp fastakúnna. „Þetta er mjög tryggur hópur Íslendinga þó að staðurinn sé danskur veitingastaður í grunninn. Danirnir eru nefnilega ekki alslæmir þótt þeir hafi sett okkur í áhættuhóp á undan öllum öðrum löndum, gefi okkur aldrei stig í Eurovision og svo var það 14-2,“ segir Jakob Einar og segir mikilvægt að halda í gleðina á svona tímum.

Ekki gleyma að vera til

„Þjóðareignin okkar hann Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir að fólk megi ekki gleyma að vera til og lifa sínu lífi. Við höfum
litið svolítið á það sem okkar skyldu að vera til staðar fyrir þá sem kjósa að vera til, en að sama skapi gripið til aðgerða svo fólk
sé ekki útsettara fyrir smiti en annars staðar í samfélaginu. Við höfum lengt milli borða, dreift spritti og svo skerpt á öllum þrifaplönum með áherslu á almenna snertifleti.“

Jakob Einar er jafnframt stjórnarmaður í Samtökum ferðaþjónustunnar og biðlar hann til fólks að nýta sér þjónustu
þeirra veitingastaða sem það vilja halda í sínu nærumhverfi á þessum tímum.

„Þetta er bara þannig geiri að ef það kemur enginn inn um dyrnar hjá þér marga daga í röð þá ertu kominn í vandræði. Þess
vegna eru aðilar í ferðaþjónustu að leggja gríðarlegt traust á stjórnvöld núna í þessum hamförum og mér sýnist þau vera að koma til móts við okkur með miklum dug. Núna ætti að vera aðaltímabil veisluþjónustu fyrir fermingar, árshátíðir og annað, sem gufar ekki upp heldur safnast vonandi fyrir. Síðan á ég von á því að þegar storminn lægir og þokunni léttir þá verður þjóðin bara eins og kýrnar á vorin, það verður uppsöfnuð þörf til að fara út og lifa lífinu,“ segir Jakob.

Jakob bendir á að veitingageirinn njóti þess ekki á erfiðum tímum að fólk bóki mikið fram í tímann eða geti búist við reglulegum áskriftartekjum eins og sumir geirar.

„Það er mikilvægt núna að við hjálpumst öll að, svo við sem erum í þessum bransa missum ekki vonina. Það er ýmislegt hægt að gera, kaupa gjafabréf og gefa þau í afmælin sem eru framundan, bóka borð fram í tímann, og jafnvel jólahlaðborðið fyrir fjölskylduna strax.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Fjallað er um endurfjármögnun Bakkavarar og þróun verðmætis eignarhlutar Ágústar og Lýðs
  • Boltanum hefur verið kastað til ríkisins með viðbrögðum Seðlabankans við kórónuveirufaraldrinum
  • Vandræðagangur frumvarpa ríkisins til að bregðast við hröðum breytingum á efnahagshorfunum skoðaður
  • Flugmarkaðurinn er í heljarþröm, en fyrirtækin eru mjög misvel útsett með sjóðum til að þreyja þorrann
  • Nýir eigendur Borgunar standa fyrir svörum um kaupin og framtíðarhorfur
  • Möguleika til að höfða bótamál á hendur slitastjórnarmanns sem nú er dómari vegna meðferðar á búi
  • Ítarleg úttekt á vandamálum í kringum uppbyggingu innviða og nýtingu framkvæmdaáætlana til að bregðast við sveiflum
  • Svipmyndum af heimsfaraldrinum sem á uppruna sinn í Wuhan borg í Kína er brugðið upp
  • NeckCare stefnir á sókn með greiningarlausnir sínar á hreyfiskaða
  • Rætt er við Thelmu Theodórsdóttur nýjan hótelstjóra Fosshótela um áskoranir starfsins, námið og rokkáhugann
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Óðins sem skrifar um leyndarhyggju, pukur og slæma stjórnsýslu