Á næstu misserum stendur til að opna þrjár mathallir á nánast sama blettinum í miðbæ Reykjavíkur. Mathallirnar þrjár verða í um 200 metra fjarlægð frá hvor annarri og eru staðsettar á Vesturgötu, Hafnartorgi og í Pósthússtræti.

Á Vesturgötu 2, sem áður hýsti Kaffi Reykjavík, mun opna mathöll á vormánuðum, en Viðskiptablaðið greindi frá þessu nú á dögunum. Rekstraraðili mathallarinnar er víetnamskt - íslenskt fjölskyldufyrirtæki sem rekur veitingahúsakeðjuna Pho sem er með veitingastaði við Suðurlandsbraut, Laugaveg, Tryggvagötu og Skólavörðustíg.

Fasteignafélagið Reitir hefur fengið samþykki byggingarfulltrúa um að breyta starfseminni á fyrstu hæð í Pósthússtræti 3 og 5 í mathöll með alls tólf rekstrareiningum. Þar er gert ráð fyrir 161 gestum í sæti á fyrstu hæð og 28 til 50 gestum í kjallara, að því er kemur fram í grein Fréttablaðsins. Ýmis starfsemi er í Pósthússtræti 3 en Hitt húsið er með aðsetur í Pósthússtræti 5, þar sem Pósturinn var með höfuðstöðvar sínar áður fyrr.

Á Hafnartorgi er fyrirhuguð opnun mathallar undir vinnuheitinu Hafnartorg Gallery, en nýlega var auglýst laust starf rekstrarstjóra mathallarinnar. Í starfsauglýsingunni segir að 8 veitingaeiningar muni nýta sameiginleg þjónusturými og setusvæði fyrir gesti. Jafnframt verði einn stærri stakur veitingastaður aðliggjandi mathöllinni ásamt verslunum. Fasteignafélagið Reginn hf. er rekstraraðili mathallarinnar.

Nokkrar mathallir eru nú þegar í nágrenni við þrjár fyrrnefndar mathallir. Má þar nefna mathöllina á Granda en einnig á Hlemmi.