Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að því miður séu íslensk stjórnvöld nánast á byrjunarreit þegar kemur að leyfisveitingakerfi í kringum vindorkuver. Þetta kom fram í máli Bjarna á ársfundi Landsvirkjunar fyrr í dag.
„Þarna held ég að við séum með mál sem við erum því miður nánast á byrjunarreit," sagði Bjarni.
Hann bendir þó á að úrbótum sé heitið í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem farið verði í á kjörtímabilinu. Enda hafi vindorkuver þegar risið í nágrannalöndum Íslands.
Þá sé það ekki ósanngjörn krafa sveitarfélaga að þau fái einhvern ávinning af vindorkuverum sem rísi í þeirra sveitarfélögum.
Í nýrri grænbók umhverfis- og loftslagsráðuneytisins í orkumálum er áætlað að auka þurfi raforkuframleiðslu hér á landi um allt að 124% eigi að ná markmiðum um orkuskipti í landi, sjó og lofti til viðbótar við raforkuþörf vegna aukinna umsvifa í hagkerfinu.
Bjarni sagði vindorku vera vænlega leið til að auka við raforkuframleiðslu og benti til að mynda á að vindorkuver framleiði mest þegar innrennsli í miðlunarlón vatnsaflsvirkjana er hvað minnst. Nokkrir aðilar hafa hug á umtalsverðir uppbyggingu á vindorkuverum en segja má að þau áform hafi þokast hægt áfram.
Þá sé uppbygging raforkukerfisins einnig þjóðaröryggismál sem sjá megi í ljósi nýjustu atburða á alþjóðavísu. Að knýja samgöngukerfið á innlendri raforku í stað þess að treysta á jarðefnaeldsneyti sé brýnt hagsmunamál fyrir Ísland.