Stjórnvöld í Þýskalandi hyggjast fjárfesta 300 milljónum evra í líftæknifyrirtækið CureVac sem framleiðir bóluefni gegn Covid-19 veirunni. Með þessu koma stjórnvöld í veg fyrir erlenda yfirtöku á fyrirtækinu sem hefur meðal annars verið í augýn ríkisstjórnar Donald Trump í Bandaríkjunum. Financial Times segir frá.

Stjórnvöld í Berlin tilkynntu kaupin sama dag og fréttir bárust af því að líftæknifyrirtækið, sem staðsett er í Tübingen í suður Þýskalandi, væri að áforma frumútboð í New York Kauphöllinni.

Fyrirtækið mun hefja klínískar tilraunir fyrir Covid bóluefni í þessum mánuði en CureVac er eitt þeirra örfáu fyrirtækja sem notast við mRNA tæknina sem getur þróað bóluefni hraðar en hefðbundnari aðferðir.

„Við viljum gefa [fyrirtækinu] fjárhagslegt öryggi,“ sagði Peter Altmaier, efnahagsráðherra Þýskalands, við fréttamenn fyrr í dag.

„Fyrir mig og fyrir ríkisstjórnina skiptir það höfuðmáli út frá atvinnusjónarmiðum að við höldum og styrkjum lykiliðnaði í landinu. Þýskaland er ekki til sölu. Við seljum ekki okkar silfurmuni,“ bætti hann við.

Samkvæmt bréfi sem FT komst yfir sem þýska fjármálaráðuneytinu sendi frá sér segir að CureVac fjárfestingin hafi verið „bráðnauðsynleg“ þar sem fyrirtækið væri að undirbúa frumútboð á Nasdaq um miðjan júlí. Í bréfinu kom fram að fyrirhuguð hlutafjárkaup ríkisstjórnarinnar séu ætluð til þess að koma í veg fyrir að erlendir fjárfestar taki yfir fyrirtækið og að það fari úr landi.

„Það er óttast að komi til yfirtöku og flutnings fyrirtækisins erlendis að bóluefni gegn Covid-19 sem framleitt verður af CureVac verði ekki aðgengilegt í Þýskalandi og Evrópu,“ segir í bréfinu.

CureVac er í 80% eigu Dietmar Hopp, eiganda SAP, en Bill og Melinda Gates eru einnig meðal eigenda þess.