Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur fallist á tillögu Bankasýslu ríkisins um sölu frekari eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka. Endanleg ákvörðun um sölumeðferð eignarhlutarins verður tekin eftir að umsagnir hjá þingnefndum og Seðlabanka Íslands liggja fyrir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu sem óskar eftir að umsagnirnar liggi fyrir eigi síður en 2. mars næstkomandi.

Fjármálaráðuneytið hefur óskað eftir umsögnum fjárlaganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis um greinargerð Bjarna um ráðgerða sölumeðferð. Þá var óskað eftir formlegri umsögn Seðlabankans um jafnræði bjóðenda, líkleg áhrif sölu á gjaldeyrismarkað, gjaldeyrisforða og laust fé í umferð.

„Allt bendir til þess að ásættanleg skilyrði séu fyrir frekari sölu á hlutum í Íslandsbanka miðað við núverandi markaðsaðstæður, ekki síst ef horft er til þróunar hlutabréfa hérlendis almennt og þróunar hlutabréfa í evrópskum bönkum,“ segir í greinargerð Bjarna vegna sölu hluta í Íslandsbanka.

Söluandvirði fari í innviði og að greiða niður skuldir

Í greinargerðinni segir að fjárfestar um allan heim hafa sýnt áhuga á því að fjárfesta í hlutabréfum banka vegna vaxandi verðbólgu og hækkandi vaxta á lykilmörkuðum. Enn fremur virðist rekstur og afkoma Íslandsbanka vera í góðum farvegi.

„Þá er vert að ítreka að erfitt er að sjá gild rök fyrir því að ríkið eigi til lengri tíma eins stóran hlut í fjármálakerfi landsins og verið hefur frá bankahruninu,“ segir í greinargerðinni.

Bjarni segir að mögulegt og æskilegt væri að nýta þá fjármuni sem bundnir eru í Íslandsbanka til að fjárfesta í samfélagslega arðbærum innviðum eða minnka skuldsetningu ríkissjóðs. Það væri til þess fallið að auka tiltrú fjárfesta á ríkissjóði og auðvelda öflun lánsfjár til að mæta hallarekstri.

„Það er á þessum grunni sem ráðherra hefur fallist á tillögu Bankasýslu ríkisins um að hefja framhald á sölu á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka og óskar því eftir umfjöllun og athugasemdum frá fjárlaganefnd, efnahags- og viðskiptanefnd ásamt áliti Seðlabanka Íslands eigi síðar en 2. mars næstkomandi.“

Tilboðsfyrirkomulag í fyrstu og blönduð leið á seinni stigum

Þrjár vikur eru liðnar síðan Bankasýslan lagði fram tillögu um sölu á eftirstandandi 65% hlut ríkisins í Íslandsbanka. Stofnunin lagði til að hluturinn yrði seldur í nokkrum áföngum fyrir árslok 2023.

Í minnisblaði Bankasýslunnar með tillögunni er lagt til að fyrsti hluti sölunnar fari fram með tilboðsfyrirkomulagi. Slík sala færi fram á nokkrum dögum og myndi þátttaka einskorðast við fagfjárfesta. Þar segir að þetta fyrirkomulag sé til þess fallið að tryggja hæsta verð en ókosturinn sé að það útiloki beina þátttöku almennings.

Sjá einnig: Ekki gert ráð fyrir aðkomu almennings á fyrstu stigum

Bankasýslan leggur jafn framt til að farin verði blönduð leið tilboðsfyrirkomulags og svokallaðrar miðlunarleiðar á síðari stigum sölu hlutabréfanna. Miðlunarleiðin felur í sér að Bankasýslan myndi gefa verðbréfafyrirtæki fyrirmæli um að selja ákveðinn fjölda bréfa á ákveðnu tímabili og hafa að leiðarljósi að raska ekki verðmyndun á markaði.