Nokkur ólga ríkir á póstmarkaði vegna meintra oftekinna gjalda Íslandspósts á einkaréttarvarinni póstþjónustu og hafa keppinautar meðal annars sent kvartanir til eftirlitsstofnana vegna grunsemda um að hagnaður úr einkaréttarstarfsemi Íslandspósts hafi verið nýttur til að víxlniðurgreiða samkeppnisstarfsemi fyrirtækisins.
Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í úttekt sinni á rekstri Íslandspósts fyrr á árinu, þá annast Íslandspóstur einkarétt ríkisins á dreifingu bréfa sem eru upp að 50 grömmum í þyngd. Með þessum einkarétti fylgir alþjónustuskylda, sem felst í því að tryggja öllum landsmönnum jafnan aðgang að póstþjónustu, þó án þess að hafa til þess einkarétt. Önnur póstþjónusta, til dæmis fjölpóstur, fer fram á samkeppnismarkaði.
Eitt af hlutverkum tekna af þjónustu í einkarétti er að standa undir svokallaðri alþjónustubyrði, sem er sá kostnaður sem fellur á Íslandspóst vegna alþjónustu. Í gjöldum einkaréttar er því meðtalinn sá kostnaður sem einkarétti er heimilt samkvæmt lögum um póstþjónustu að niðurgreiða vegna samkeppni innan alþjónustu. Að öðru leyti er Íslandspósti óheimilt að stunda víxlniðurgreiðslur, sem sagt að nýta sjóði sem stafa frá einkarétti til að niðurgreiða samkeppni við einkafyrirtæki. Lög um póstþjónustu kveða einnig á um að gjaldskrár fyrir alþjónustu, þar með talinni einkaréttarþjónustu, taki mið af raunkostnaði við að veita þjónustu að viðbættri hæfilegri álagningu. Gjaldskrárnar eru lagðar fram af Íslandspósti og samþykktar af Póst- og fjarskiptastofnun (PFS), en PFS annast framkvæmd laga um póstþjónustu og eftirlit með þeirri þjónustu.
Hagnaður af einkaréttinum en tap af samkeppninni
Samkvæmt ársskýrslu Íslandspósts fyrir árið 2017 nam afkoma Íslandspósts af einkaréttarvarinni þjónustu samtals 868 milljónum króna á árunum 2016 og 2017. Á sama tímabili skilaði samkeppnisreksturinn hins vegar samtals 1,5 milljarða króna tapi. Afkoma einkaréttar hækkaði mikið milli áranna 2015 og 2016. Árið 2015 var afkoma einkaréttar rétt tæplega 13 milljónir króna en árið 2016 var afkoman tæplega 500 milljónir króna. Samkvæmt upplýsingum sem PFS veitti Viðskiptablaðinu í áðurnefndri úttekt á rekstri Íslandspósts, fólst frávikið meðal annars í tekjuaukningu umfram áætlun, mikilli aukningu á erlendum póstsendingum, lækkun kostnaðar vegna fækkunar útburðardaga í dreifbýli og lægri kostnaði vegna ýmissa hagræðingaraðgerða.
Í byrjun árs fækkaði Íslandspóstur svo, með samþykki PFS, dreifingardögum bréfapósts á höfuðborgarsvæðinu um helming og dreifir nú pósti að jafnaði annan hvern virkan dag. Þetta var gert til að bregðast við rekstrarvanda, en á síðasta ári tilkynntu stjórnendur Íslandspósts að rekstrarafkoma fyrirtækisins hefði verið „óásættanleg" á síðustu árum. Verulega hefði vantað upp á nauðsynlegan árlegan hagnað til að standa undir skuldbindingum og endurnýjun rekstrarfjármuna. Íslandspóstur benti einnig á að mikil magnminnkun hefði átt sér stað í bréfapósti á síðustu árum og sú þjónusta falli að stærstum hluta innan einkaréttar.
Íslandspóstur hugðist halda eftir hagræðinu sem skapaðist við það að fækka dreifingardögum en PFS stöðvaði þessar fyrirætlanir fyrirtækisins í janúar á þessu ári og gerði félaginu að skila inn nýrri gjaldskrá til þess að skila hagræðinu til þeirra sem nota þjónustuna. Samkvæmt ákvörðun PFS (nr. 2/2018) þar sem PFS samþykkti fækkun dreifingardaga, bar Íslandspósti að endurskoða gjaldskrá sína fyrir 1. júní síðastliðinn. Fyrirtækið skilaði svo inn tillögu að nýrri gjaldskrá til PFS tæplega mánuði of seint, eða þann 22. júní síðastliðinn. Í tillögunni fer Íslandspóstur fram á 8% hækkun á gjaldskrá innan einkaréttar. Þetta kom fram í frétt á vef PFS og í fréttinni var jafnframt óskað eftir sjónarmiðum hagsmunaaðila og var þeim gefinn frestur til að skila inn athugasemdum til 15. september næstkomandi.
Eftirlitsaðilar benda hver á annan
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að þessi töf sem hefur verið á endurskoðun gjaldskrár hafi orðið til þess að notendur þjónustunnar séu að borga of mikið fyrir hana. Jafnframt hafi breyting á dreifingardögum verið í gildi frá því í byrjun árs og frá þeim tíma hafi þetta hagræði skilað sér til Íslandspósts þrátt fyrir ákvörðun PFS. Meðan Íslandspóstur haldi uppi verðlagningu á þjónustu sem er í einkarétti þá sé gjaldskrá fyrirtækisins fyrir samkeppnisrekstur lág og hún breytist lítið.
„Við og hluti af okkar félagsmönnum sem eru í samkeppni við Íslandspóst, höfum leitað til margra aðila á vegum hins opinbera til þess að fá staðfest með óyggjandi hætti að rekstur fyrirtækisins sé í samræmi við lög og að það sé ekki verið að nota tekjur úr einkaréttarhlutanum til að niðurgreiða samkeppnishluta rekstrarins. Það kemur ekkert út úr þessu og allir benda hver á annan. PFS bendir á Samkeppniseftirlitið (SE) sem vísar aftur á PFS, Ríkisendurskoðun er sjálf endurskoðandi Íslandspósts og telur það ekki sitt hlutverk að fara ofan í saumana á þessu máli og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið vill ekkert gera. Við lögðum fyrir stjórn Íslandspósts sem starfar í umboði almennings, spurningar um samkeppnishætti og rekstur fyrirtækisins. Stjórnin sagði okkur bara í rauninni að eiga okkur og veitti engin svör. Svo þegar gripið er til aðgerða til þess að lækka stórlega kostnað einkaréttarþjónustunnar, þá bregst PFS við með þeim eðlilega hætti að krefjast þess að hagræðinu af þeirri breytingu sé skilað til viðskiptavina Íslandspósts. Það eru lög sem kveða á um það að gjaldið fyrir alþjónustu skuli miðast við kostnað að viðbættri hæfilegri álagningu. Þannig tryggja lögin Íslandspósti alltaf viðunandi afkomu af einkaréttarþjónustunni.
Það hefur verið þannig undanfarin ár að einkaréttarþjónustan er í ágætri afkomu en tapið útskýrist frá samkeppnisrekstrinum. Þessi útreikningur Íslandspósts um að helmings fækkun á dreifingardögum þýði að þjónustan eigi að hækka um 8%, er einhver óskiljanleg rekstrarhagfræði. Í síðustu viku gaf Íslandspóstur svo út hálfsárs rekstraryfirlit, sem er nýlunda. Þar bera þeir fyrir sig að tapið fari vaxandi og að það sé því ekkert svigrúm til þess að lækka verðið á einkaréttinum. Það sem vantar hins vegar í þetta er sundurliðun á afkomunni, hvernig afkoman úr einkaréttarrekstrinum er og afkoman úr samkeppnisrekstrinum. Það er mikið hagsmunamál stjórnenda Íslandspósts að segja sem minnst frá því. Þetta ríkisfyrirtæki heldur gjaldskrá fyrir samkeppnisrekstur óbreyttum svo árum skiptir og á meðan eru einkareknir keppinautar á póstmarkaði sem neyðast til að hækka verðin hjá sér, meðal annars vegna hækkandi launakostnaðar," segir Ólafur.
Hækkun nauðsynleg til að standa undir kostnaði
Í svari Íslandspósts við fyrirspurn Viðskiptablaðsins, segir að hækkun á gjaldskrá í einkaréttarstarfsemi hafi verið nauðsynleg til að standa undir kostnaði við móttöku, vinnslu og dreifingu einkaréttarbréfa. Í kjölfar mikillar magnminnkunar einkaréttarbréfanna, en magn þeirra hafi meira en helmingast frá árinu 2007, sé ljóst að óverjandi var að halda uppi óbreyttu þjónustustigi og því hafi sú breyting verið gerð á dreifingardögum bréfapósts í þéttbýli þann 1. febrúar sl. að móttakendur fá nú til sín bréfapóst annan hvern dag. Mikil hagræðing hafi náðst með fyrirkomulaginu og því ljóst að nauðsynleg hækkun á verði bréfa innan einkaréttar sé töluvert lægri á árinu 2018 en hefði orðið hefðu umræddar breytingar ekki komist í framkvæmd og skila sér þannig til notenda þeirrar þjónustu sem um ræðir.
Í svari Íslandspósts hafnar fyrirtækið því einnig að hagnaður úr einkaréttarhluta rekstrarins sé nýttur til víxlniðurgreiðslu á samkeppnisstarfsemi. Tilgangur einkaréttar í póstþjónustu sé að tekjur vegna hans standi undir annarri þjónustu sem einkaréttarhafi veitir eingöngu á grundvelli alþjónustuskyldu og ekki sé hagkvæmt að veita á viðskiptalegum forsendum. Undanfarin ár hafi tekjur vegna einkaréttar ekki dugað til að standa undir þeirri byrði. Til að óheimil víxlniðurgreiðsla teljist hafa átt sér stað frá einkaréttarhluta Íslandspósts í samkeppnishluta þurfi tekjur vegna einkaréttar að vera hærri en stakstæður kostnaður (e. stand-alone cost) einkaréttar. Svo sé ekki í tilfelli Íslandspósts og því ekki um möguleika til víxlniðurgreiðslu að ræða. Benda megi á umfjöllun um þetta í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 8/2017 sem fjallar um aðgerðir til að styrkja samkeppnisaðstæður á póstmarkaði.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .