Segja má að í fjármálakrísunni 2008 hafi falist lán í óláni fyrir Sigurgeir Jónsson – sem var orðinn þreyttur á þeim viðfangsefnum og því starfsumhverfi sem einkenndi afleiðuviðskipti fyrir krísuna – því í kjölfar hennar gjörbreyttist fjármálamarkaðurinn. Eins og hendi væri veifað fóru afleiðuviðskipti úr hetjudáð í skammaryrði, og spjótin beindust að bönkunum.

„Nokkrir gamlir félagar stofnuðu sameignarfélag sem ég ákvað að taka þátt í. Starfsemin fólst í að veita ráðgjöf til stofnanafjárfesta sem áttu í vandræðum með að endurheimta eignir sínar frá bönkunum, höfðu jafnvel verið sviknir af þeim eða eitthvað slíkt. Ég var með ákveðnar hugmyndir; ég vissi að margir kúnnar höfðu keypt innpakkaðar fjármálaafurðir – þar sem afleiðum og skuldabréfum hafði verið pakkað saman í sérstök eignarhaldsfélög (e. SPV) – en til að losa um þær eignir þurftu þeir að tala við þann banka sem bjó afurðina til, því enginn annar myndi vilja kaupa hana.“ Ástæðuna fyrir þessu segir Sigurgeir fyrst og fremst hafa verið þá að þær afleiður sem lágu að baki tiltekinni afurð voru í beinni tengingu við þann banka sem bjó hana til, og hann var því sá eini sem gat leyst hana upp.

Fann nýja mótaðila og losaði eignirnar
Í ljósi þess ástands sem skapast hafði á markaði með slíkar afurðir notfærðu margir bankar sér þessa stöðu og gerðu eigendum þeirra tilboð langt undir upplausnarvirði – samanlögðu markaðsvirði undirliggjandi eigna. „Ég fékk þá hugmynd að bjóða upp á þá þjónustu að ég færi og talaði við bankana sem gáfu þetta út og semdi við þá um að taka afurðirnar í sundur.“

Þetta gerði Sigurgeir með því að finna nýja mótaðila fyrir útgáfubankana til að taka við skuldbindingum sérstaka eignarhaldsfélagsins, gegn greiðslu, og losa þar með um undirliggjandi eignir þess. Þetta gekk eftir, og svo fór að þeir sem nýttu sér þessa leið fengu um fjórðungi hærra verð en aðrir fyrir sínar afurðir, eftir að Sigurgeir hafði tekið þær í sundur, boðið afleiðusamningana upp, og selt í kjölfarið þær eignir sem eftir stóðu.

Nánar er rætt við Sigurgeir í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .