Franska sjóðstýringarfyrirtækið Ardian og Síminn töldu kaup þess fyrrnefnda á Mílu sem samið var um í haust ekki fela í sér tilkynningarskyldan samruna samkvæmt samkeppnislögum hér á landi.

Samkeppniseftirlitið (SKE) var því ósammála og gerði kröfu um samrunatilkynningu eftir að hafa leitað sjónarmiða hagsmunaaðila í málinu. Þetta kemur fram í slíkri tilkynningu sem Ardian hefur sent eftirlitinu, sem óskar nú eftir sjónarmiðum hagsmunaaðila um samrunann og möguleg áhrif hans.

Þar kemur ennfremur fram að við undirbúning hennar hafi komið í ljós að “tiltekin fyrirtæki undir yfirráðum Ardian, í gegnum eignarhald nánar tiltekinna sjóða í stýringu Ardian, hefðu veltu á íslenskum mörkuðum og að sú velta hefði samtals verið rétt yfir 300 milljónir króna árið 2020, og samruninn þar með tilkynningarskyldur”. Um þetta hafi SE verið upplýst þann 22. desember síðastliðinn.

Síðar í skjalinu – sem er alls 60 blaðsíður – eru 7 fyrirtæki talin upp sem einhverja veltu eru sögð hafa hér á landi, en ekkert þeirra er staðsett á Íslandi. Starfsemi þeirra er auk þess sögð vera á mörkuðum sem séu algerlega ótengdir mörkuðum Mílu, og fyrirtæki undir yfirráðum Ardian hafi að öðru leyti enga starfsemi sem tengist íslenskum mörkuðum.

„Í því ljósi telur Ardian að það sé ekki þörf á að tilgreina frekar fyrirtæki sem eru með beinum eða óbeinum hætti undir yfirráðum Ardian, auk þess sem slík samantekt yrði verulegum vandkvæðum háð og í því samhengi áréttað að Ardian hefur um 120 milljarða bandaríkjadala í stýringu.“